Metfjöldi forstjóra skráðra félaga í Bandaríkjunum hafa látið af störfum í ár þrátt fyrir að launakjör forstjóra eru sögulega há, að því er segir í umfjöllun Financial Times.

Frá janúar til nóvember í ár tilkynntu 327 forstjórar um að þeir væru að láta af störfum. Til samanburðar var fyrra met slegið á árinu 2019 en þá hættu 312 forstjórar skráðra félaga í Bandaríkjunum störfum.

Ráðgjafar sem veita ráðgjöf til forstjóra segja í samtali við FT að áformaðir tollar Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, geri það að verkum að forstjórar fyrirtækja sem stýra alþjóðlegum aðfangakeðjum eru margir hverjir að láta af störfum eða huga að starfslokum fremur en að þurfa að kljást við ný vandamál í breyttu viðskiptaumhverfi.

Þá fer þeim forstjórum skráðra félaga sem hafa áhuga á að færa sig yfir til óskráðra fyrirtækja fjölgandi. Einn ráðgjafi segir að hjá sumum óskráðum fyrirtækjum bjóðist hærri launakjör heldur en í forstjórastöðum hjá skráðum fyrirtækjum. Þá séu ekki sömu kvaðir um upplýsingagjöf og óskráð fyrirtæki bjóða almennt meira upp á launakjör tengdum hlutafé.

Annar viðmælandi FT segir að stjórnir skráðra fyrirtækja séu undir meiri þrýstingi en áður að taka ákvarðanir er varða forstjóra ef árangur er ekki í takt við markmið.

Meðal þeirra forstjóra sem létu af störfum í ár eru Dave Calhoun, forstjóri Boeing, Pat Gelsinger, forstjóri Intel, og John Donahoe, forstjóri Nike, en hlutabréfaverð umræddra félaga lækkaði talsvert á árinu.

Starfstími forstjóra hjá skráðum fyrirtækjum hefur í heildina dregist saman. Á þriðja ársfjórðungi létu átta forstjórar af störfum eftir að hafa gegnt stöðunum í innan við þrjú ár. Ekki hafa verið fleiri skammtímaráðningar í forstjórastöður hjá skráðum fyrirtækjum frá árinu 2019, samkvæmt ráðgjafarfyrirtækinu Russell Reynolds.

Launakjör forstjóra fyrirtækja í S&P 500 vísitölunni voru að miðgildi 15,6 milljónir dala eða um 2,2 milljarðar króna í ár og hafa aldrei verið hærri.

Í ljósi þess að margir forstjórar fá greidd laun í formi kauprétta eða annarra hlutabréfahlunninda fremur en reiðufé, þá kann há verðlagning á bandaríska hlutabréfamarkaðnum einnig að hafa áhrif á ákvarðanir forstjóra um eigin störf.