Brottfarir Íslendinga í maí voru um 65 þúsund talsins samkvæmt nýjum tölum Ferðamálastofu. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri í maí frá því að mælingar hófust. Þegar mest var eða í maí 2018 mældust þær tæplega 63 þúsund.
Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 200 þúsund talsins eða um og yfir 80% af því sem þær mældust á sama tímabili árin 2018 og 2019.
Nálgast óðum 2019 fjöldann
Brottfarir erlendra farþega voru 112 þúsund í maí sem er einungis 11% minna en í maí 2019. Séu hins vegar skoðaðar brottfarir erlendra farþega frá áramótum þá voru þær 459 þúsund talsins samanborið við 705 þúsund á sama tímabili árið 2019. Þegar mest var, voru brottfarir erlendra farþega um 793 þúsund á fyrstu fimm mánuðum ársins 2018.