Seljaveitingar ehf., félag utan um rekstur matarvagns og minjagripaverslunar við Seljalandsfoss, hagnaðist um 138 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 34 milljóna hagnað árið áður.

Fyrirtækið velti 462 milljónum króna, og jukust tekjurnar um 38% milli ára. Þannig nam hlutfall hagnaðar af veltu tæplega 30%. Matarvagninn hefur verið rekinn réttu megin við núllið allt frá stofnun hans árið 2013, að undanskildu Covid árinu 2020.

Tvenn hjón opnuðu matarvagninn sumarið 2013, þau Elísabet Þorvaldsdóttir Kvaran og Heimir Freyr Hálfdanarson, og Kristín Guðbjartsdóttir og Atli Már Bjarnason.

Í dag á sonur Kristínar og Atla, Aron Már Atlason, helmings hlut í Seljaveitingum á móti Elísabetu og Heimi. Lagt er til að greiða 40 milljónir í arð á árinu 2024 vegna síðasta árs.

Nánar er fjallað um Seljaveitingar í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.