Finnska heilsutæknifyrirtækið Ōura Health, sem framleiðir snjallhringinn Ōura Ring, hefur tryggt sér 200 milljónir dala í nýrri fjármögnunarlotu.

Fyrirtækið er metið á 5,2 milljarða dala í fjármögnuninni, sem nemur 725 milljörðum króna. Fidelity Management leiddi fjármögnunarlotuna.

Ōura var stofnað árið 2013 af þeim Petteri Lahtela, Kari Kivelä og Markku Koskela, og hefur síðan þá aflað meira en 550 milljónum dala í fjármögnun.

Velta fyrirtækisins hefur meira en tvöfaldast milli ára og nemur um hálfum milljarði Bandaríkjadala á þessu ári, að jafnvirði 70 milljarða íslenskra króna. Nýjasta útgáfa Ōura hringsins-kostar 349 dali og 5,99 dali á mánuði. Hringurinn fylgist með svefni, hjartslætti, líkamshita og virkni notandans.

Hringirnir eru sérstaklega vinsælir meðal fræga fólksins og stjórnenda í viðskiptalífinu, að því er kemur fram í grein hjá FT.

Má þar nefna Harry Bretaprins, leikkonurnar Gwyneth Paltrow og Jennifer Aniston, og frumkvöðlana Jack Dorsey, stofnanda Square og Twitter, Marc Benioff, stofnanda Salesforce, og Joe Gebbia, stofnanda Airbnb.

Jack Dorsey, stofnandi Square og Twitter, skartar hér Ōura hring.
© epa (epa)