Fjárfestar horfa nú í auknum mæli til hágæða fyrirtækjaskuldabréfa. Alls hefur 19 milljarða dala innflæði runnið til sjóða sem fjárfesta í fyrirtækjaskuldabréfum í fjárfestingaflokki (e. investment grade) það sem af er ári. Innflæði í slíka sjóði hefur aldrei verið jafnmikið á þessum tíma árs, samkvæmt upplýsingum EPFR.

Í umfjöllun Financial Times segir að innflæðið gefi til kynna ákefð fjárfesta að tryggja sér talsvert hærri ávöxtunarkröfu en sést hefur í öruggasta flokki skuldabréfa útgefnum af fyrirtækjum á undanförnum árum.

Meðalávöxtunarkrafa á bandarískum fyrirtækjaskuldabréfum í fjárfestingaflokki hefur hækkað úr 3,1% í 5,45% á rúmu ári og hefur ekki verið hærri frá árinu 2009.