Kínverska nýárið gengur í garð í dag og með því er ár snáksins formlega hafið. Kínverska nýárið, eða vorhátíðin eins og hún er einnig kölluð, er mikilvægasta hátíð í kínverskri menningu.
Hátíðin er ekki aðeins haldin í Kína heldur um allan heim, frá Singapúr til London og San Francisco. Kínverska sendiráðið á Íslandi stóð einnig fyrir nýárssýningu í Háskólabíói um síðustu helgi með pompi og prakt.
Kínverjar eru heldur ekki þeir einu sem halda upp á nýárið, þrátt fyrir að hátíðin sjálf eigi sér rætur að rekja til Kína. Í Víetnam er vorhátíðin haldin hátíðleg en þar kallast hún Tet. Í Suður-Kóreu kallast hún Seollal og í Indónesíu er hún þekkt sem Imlek.
Í ár verður það snákurinn sem fær að ráða ferðinni en samkvæmt kínverska dagatalinu táknar snákurinn visku, umbreytingu og aðlögunarhæfni. Með það í huga er gert ráð fyrir að árið 2025 verði ár vandaðrar skipulagningar og persónulegs þroska.
Hinn umræddi snákur er meira eins og lítill kornsnákur sem fylgist skýrt með áður en hann lætur til skarar skríða, frekar en hefðbundin eiturslanga sem ræðst á allt sem kemur nálægt henni.
Hátíðin er einnig mikilvæg í augum Kínverja þar sem þetta er oftar en ekki eina fríið sem vinnandi fólk þar í landi fær yfir árið. Þar sem fjölmargir starfa í stórborgum eins og Shanghai og Peking þá fyllast lestarstöðvar og flugvellir af kínverskum verkamönnum og námsmönnum sem halda heim til smábæja sinna til að fagna nýárinu með fjölskyldunni.

Kínverska ríkisstjórnin áætlar rúmlega níu milljarða ferðalaga yfir vorhátíðina í ár. Þar af ferðast 510 milljónir með lest, 90 milljónir með flugvélum og restin með bílum. Flestar ríkisstofnanir og fyrirtæki verða lokuð yfir þetta vikulanga frí.
Made in China 2025
Árið er einnig mikilvægt fyrir kínversk stjórnvöld en fyrir tíu árum síðan kynntu þau áætlun sem ber heitið Made in China 2025. Áætlunin tekur mið af því að gera Kína að heimsveldi í alþjóðlegri hátækniframleiðslu.
Með aðstoð ríkisstyrkja, ríkisfyrirtækja og hugverkaöflun vilja Kínverjar ná fram úr tæknikunnáttu Vesturlanda í þessari háþróaðri atvinnugrein.
Þetta markmið hefur nú þegar stigið fram í sviðsljósið með aðkomu kínverska gervigreindarfyrirtækisins DeepSeek, sem gaf út í síðustu viku nýtt risamállíkan sem þykir jafnvel öflugra en OpenAi og Meta.
Í kjölfarið lækkuðu hlutabréf bandarískra tæknifyrirtækja til muna en gengi tæknirisans Nvidia lækkaði til að mynda um 17%. Önnur fyrirtæki eins og Microsoft, Amazon, Meta og Alphabet, móðurfélag Google, fylgdu ekki langt á eftir í lækkun.
Kínverjar hafa einnig beint athygli sinni að tæknivæðingu þegar kemur að landbúnaði, flugvélum, gerviefnum, lækningum og sjávartækni. Þessir geirar eru taldir vera nokkrir af miðpunktum hinnar svokölluðu fjórðu iðnbyltingar.
Endanlegt markmið kínverskra stjórnvalda virðist vera að auka sjálfbærni þjóðarinnar í tækniþróun og þar með reiða sig minna á erlenda tækni. Sömuleiðis vilja þá kínverskir tækniframleiðendur kynna vörur sínar á erlendum markaði.
Á þessu ári stefnir Kína að því að sjá fyrir um 70% af eigin hátækniþörfum og árið 2049, á hundrað ára afmæli kínverska alþýðuveldisins, vill það hafa náð yfirburðastöðu á alþjóðlegum mörkuðum.