„Fókusinn hjá KAPP hefur alltaf verið góð þjónusta, númer eitt, tvö og þrjú, og þarfir viðskiptavinarins hafa alltaf verið í forgrunni. Við viljum byggja áfram á sömu gildum þ.e. á góðri þjónustu og fókus á þarfir viðskiptavinarins. Þrátt fyrir að við séum að vaxa hratt í bæði innri vexti og með yfirtökum er mikilvægt að halda fókus,“ segir Ólafur Karl Sigurðarson, aðstoðarforstjóri tæknifyrirtækisins KAPP, um vegferð fyrirtækisins að undanförnu.

KAPP hefur lengi verið leiðandi á sviði kælingar á hráefnum, framan af á Íslandi en sala inná erlenda markaði hefur verið að aukast til muna síðasta áratug. Fyrirtækið selur vörur og þjónustar aðila í um allan heim og er með starfsemi í sjö löndum. Bandaríkjamarkaður hefur sérstaklega verið að sækja í sig veðrið en KAPP keypti á dögunum meirihluta í bandaríska félaginu Kami Tech í Seattle.

„Vegvísirinn að því að fara að skoða að stofna fyrirtæki eða kaupa fyrirtæki í Bandaríkjunum var að markaðurinn þar hefur keypt talsvert af OptimICE vélum og tekið þeim vel. Það sem við höfum séð í ferlinu er að þeir eru ekki jafn framsæknir eins og við Íslendingar þegar kemur að vinnslu með hráefni, segja má að þeir séu 10 til 15 árum á eftir okkur í veiðum og meðhöndlun á hráefni. Við sáum því tækifæri í því að færa okkar hugvit og tækniþekkingu á nýja markaði. Í framhaldinu hófu eigendur og hluthafar, að skoða hvaða möguleikar voru í boði,“ segir Ólafur Karl.

„Hingað til hefur fyrirtækið ytra, KamiTech, nánast eingöngu verið með fókus á að þjónusta skipin sem koma þar að höfn. En við sjáum mikil tækifæri í því, að bæta við áherslu á landvinnslur þegar kemur að kælingu og frystingu. Við sjáum það fyrir okkur með kaupunum erum við að búa til stöndugt fyrirtæki sem er leiðandi á heimsvísu þegar kemur að kælingu og frystingu á hráefni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.