Lindex hefur nú opnað dyrnar að nýju verslun sinni í stærstu verslunarmiðstöð Danmerkur - Field´s í Kaupmannahöfn sem reyndist vera metopnun þegar uppi var staðið. 13.700 manns heimsóttu verslunina yfir opnunarhelgina. Opnunin er stærsta opnun tískuvörumerkis í sögu verslunarmiðstöðvarinnar Field´s. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Fólk tók sér stöðu fyrir framan verslunina 2 tímum fyrir tilsettan opnunartíma til þess að verða fyrstu viðskiptavinir í Danmörku í nýju versluninni.  Nokkrum mínútum fyrir opnun hafði röðin teygt sig yfir nánast alla 1. hæð verslunarmiðstöðvarinnar.

„Við erum yfir okkur ánægð vegna móttökunnar sem Lindex fékk frá viðskiptavinum okkar.  Það er ljóst að fólk hefur saknað þess að hafa Lindex á danska markaðnum og við erum óskaplega stolt af því að vera fyrsta verslunarmiðstöðin til þess að opna fyrstu Lindex verslun í Danmörku.  Við höfum aldrei áður séð tískuvörumerki draga svo marga gesti að og skapa röð, sem náði nánast í gegnum alla 1. hæð Field´s, í nokkurri opnun áður.  Með þeirri viðbót sem fylgir opnun Lindex býður Field´s upp á bestu blöndu af tískuvöruverslunum allra danskra verslunarmiðstöðva,“ segir Thomas Thomsen, framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar Field´s í fréttatilkynningunni.

Þar segir jafnframt að áhuginn á vörumerkinu sé einnig áþreifanlegur á samfélagsmiðlum þar sem Lindex Danmark mun brátt fara yfir 20.000 fylgjendur á Facebook og Instagram. Umboðsaðilarnir, Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon, hyggjast opna fleiri Lindex verslanir í Danmörku og danska netverslun með skjótum sendingartíma innan skamms.

„Um þessar mundir fögnum við því  að tíu ár eru síðan við byrjuðum að selja barnaföt í gegnum Facebook frá eldhúsborðinu heima.  Það er því ótrúlegt að á þessum tímamótum fáum við tækifæri til að opna Lindex í höfuðborg kaupmannsins, Kaupmannahöfn fyrir svo miklum fjölda fólks.  Við erum gríðarlega þakklát fyrir móttökurnar og hlökkum mikið til að bjóða okkar viðskiptavinum áfram upp á tískuupplifun á heimsmælikvarða í framtíðinni,“ er haft eftir Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur og Alberti Þór Magnússyni, umboðsaðilum Lindex í Danmörku í tilkynningunni.