JBT Marel hefur birt árshlutauppgjör fyrir fjórða ársfjórðung og árið 2024 í heild, ásamt áætlunum hins sameinaða félags fyrir árið 2025. Uppgjörið tekur á fjárhagsstöðunni í aðdraganda samruna JBT og Marel sem lauk formlega í byrjun janúar.
Um er að ræða síðasta fjárhagsuppgjör félaganna sem aðskilin fyrirtæki áður en þau starfa sameinuð undir merkjum JBT Marel.
Í uppgjörinu kemur fram að pantanir JBT á fjórða ársfjórðungi námu 523 milljónum Bandaríkjadala, eða um 72,5 milljörðum íslenskra króna á gengi sagsins, og voru þar með metpantanir hjá félaginu.
Heildartekjur JBT fyrir árið 2024 voru 1.716 milljarðar dala, eða 241,0 milljarðar íslenskra króna, en hagnaður frá áframhaldandi starfsemi nam 85 milljónum dala, eða 11,9 milljörðum íslenskra króna.
Á fjórða ársfjórðungi varð hins vegar tap upp á 7 milljónir dala, eða um 983 milljónir íslenskra króna, sem rekja má að hluta til kostnaðar vegna samrunans og lífeyrisskuldbindinga.
Aðlagað EBITDA JBT fyrir árið var 295 milljónir dala, eða 41,4 milljarðar íslenskra króna.
Hjá Marel voru einnig metpantanir á fjórða ársfjórðungi, samtals 474 milljónir evra, eða 69,5 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins.
Heildartekjur félagsins árið 2024 námu 1,643 milljörðum evra, eða 241,1 milljarði íslenskra króna. Félagið skilaði nettótapi upp á 25 milljónir evra, eða um 3,7 milljarða íslenskra króna, en aðlagað EBITDA var 200 milljónir evra, eða 29,3 milljarðar íslenskra króna.
Samruni JBT og Marel hafði veruleg áhrif á rekstur beggja félaga á síðasta ári og samanlagt námu pantanir sameinaðs félags yfir einum milljarði dala á fjórða ársfjórðungi, eða um 140,4 milljörðum íslenskra króna.
Í uppgjörinu kemur fram að stjórnendur gera ráð fyrir mikilli hagræðingu í kjölfar samrunans og stefna að því að ná allt að 150 milljóna dala sparnaði, eða um 21,1 milljarði íslenskra króna, innan þriggja ára.
Fyrir árið 2025 áætlar JBT Marel heildartekjur á bilinu 3,5 til 3,6 milljarða dala, eða um 500 milljarða ríslenskra króna, en aðlagað EBITDA-hlutfall er áætlað á bilinu 15,75 til 16,50 prósent.
Félagið stefnir að því að ná árlegum kostnaðarsamlegðum upp á 80 til 90 milljónir dala, eða um 11,2 til 12,5 milljörðum íslenskra króna, í lok árs 2025.
Í uppgjörinu segir að samruninn muni bæta stöðu JBT Marel á alþjóðlegum matvæla- og drykkjarvörumarkaði og auka getu félagsins til að bjóða heildstæðar lausnir og þjónustu við viðskiptavini um allan heim.