Breski lúxusbílaframleiðandinn Rolls-Royce seldi metfjölda bíla á síðasta ári, einkum vegna aukinnar eftirspurnar í Bandaríkjunum, sínum stærsta markaði. Félagið gerir ráð fyrir að skila methagnaði. Financial Times greinir frá.

Rolls-Royce seldi 6.021 bifreið árið 2022, sem er nýtt met í 119 ára sögu bílaframleiðandans. Um er að ræða 8% fjölgun á milli ára.

Um þriðjungur sölunnar var í Norður-Ameríku, fjórðungur í Kína og fimmtungur í Evrópu. Sala í Kína dróst lítillega saman vegna Covid-samkomutakmarkanna.

Bílaframleiðandinn sagði að aukna sölu megi m.a. rekja til þess að margir viðskiptavinir sækist eftir sérútfærslum, m.a. þegar kemur að aukabúnaði og málun.

Þessir þættir hafa hjálpað félaginu að koma meðalsöluverði á Rolls-Royce bíl yfir 500 þúsund evrur, eða yfir 76,5 milljónum króna á gengi dagsins. Meðalverðið hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum.