Almennt hlutafjárútboð Ísfélagsins, í aðdraganda skráninga útgerðarfélagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar, hófst í morgun. Til stendur að selja 118,9 milljónir hluta, eða um 14,5% eignarhlut, í Ísfélaginu fyrir í það minnsta 16 milljarða króna.

Útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur, annars vegar bók A fyrir tilboð undir 20 milljónum króna þar sem boðið er upp á fast verð 135 krónur á hlut og hins vegar bók B þar sem lágmarksverð er 135 krónur á hlut. Útboðsgengið verðmetur Ísfélagið á a.m.k. 110 milljarða króna.

Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital sendi frá sér verðmat á Ísfélaginu í morgun. Þar er útgerðarfyrirtækið metið á 129,7 milljarða króna miðað við núvirðingu á áætluðu frjálsu fjárflæði til framtíðar.

Jakobsson Capital gefur Ísfélaginu verðmatsgengið 166,5 krónur á hlut. Það er 23,3% yfir ofangreindu 135 krónu útboðsgengi í bók A og lágmarksgengi í bók B í útboði Ísfélagsins.