Greiningarfyrirtækið Akkur verðmetur hlutabréf Íslandsbanka á 145 krónur á hlut. Það er um 36% yfir 106,56 króna útboðsgenginu í tilboðsbók A í yfirstandandi útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þetta kemur fram í greiningu sem Akkur birti í gær.

Verðmatið er svokallað arðgreiðslulíkan þar sem arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa í framtíðinni eru núvirtar til lok fyrsta ársfjórðungs 2025.

„Mat Akkurs er því að umfram eigið fé sé um 39ma.kr. í heildina eða rúmlega 18% af markaðsvirði bankans,“ segir í greiningunni. „Því má gera ráð fyrir að arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa verði töluverð á næstu misserum.“

Akkur segir að eignarhald Íslandsbanka hafi verið mjög þröngt og telur Akkur því að skoðanaskipti á markaði vegna hlutabréfa Íslandsbanka hafi verið takmörkuð.

„Langflestir fjárfestar eru því undirvigtaðir í Íslandsbanka enda hefur verið takmarkað flot.“

Skandinavísku bankanir hærra metnir

Finna má samanburð við stærstu banka Norðurlandann í greiningunni. Þar má sjá að íslensku bankarnir sem skráðir eru í Kauphöllina eru nokkuð undirverðlagðir ef litið er til V/I-hlutfallsins, þ.e. hlutfall markaðsvirðis á móti eigin fé bankanna.

Hlutfallið hjá Arion er í dag 1,16x, hjá Íslandsbanka er það 0,97x og hjá Kviku er það 0,96x. Til samanburðar er meðaltalið hjá stærstu bönkum Norðurlandanna, að þeim íslensku fráskildum, 1,4x.

Mynd tekin úr greiningu Akkurs. Þar má sjá samanburð á markaðsvirði stærstu banka Norðurlandanna miðað við bókfært eigið fé og nettó áþreifanlegar eignir (NTA).