Greiningarfyrirtækið Akkur verðmetur hlutabréf Íslandsbanka á 145 krónur á hlut. Það er um 36% yfir 106,56 króna útboðsgenginu í tilboðsbók A í yfirstandandi útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þetta kemur fram í greiningu sem Akkur birti í gær.
Verðmatið er svokallað arðgreiðslulíkan þar sem arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa í framtíðinni eru núvirtar til lok fyrsta ársfjórðungs 2025.
„Mat Akkurs er því að umfram eigið fé sé um 39ma.kr. í heildina eða rúmlega 18% af markaðsvirði bankans,“ segir í greiningunni. „Því má gera ráð fyrir að arðgreiðslur og endurkaup eigin bréfa verði töluverð á næstu misserum.“
Akkur segir að eignarhald Íslandsbanka hafi verið mjög þröngt og telur Akkur því að skoðanaskipti á markaði vegna hlutabréfa Íslandsbanka hafi verið takmörkuð.
„Langflestir fjárfestar eru því undirvigtaðir í Íslandsbanka enda hefur verið takmarkað flot.“
Skandinavísku bankanir hærra metnir
Finna má samanburð við stærstu banka Norðurlandann í greiningunni. Þar má sjá að íslensku bankarnir sem skráðir eru í Kauphöllina eru nokkuð undirverðlagðir ef litið er til V/I-hlutfallsins, þ.e. hlutfall markaðsvirðis á móti eigin fé bankanna.
Hlutfallið hjá Arion er í dag 1,16x, hjá Íslandsbanka er það 0,97x og hjá Kviku er það 0,96x. Til samanburðar er meðaltalið hjá stærstu bönkum Norðurlandanna, að þeim íslensku fráskildum, 1,4x.
