Bandaríska samkeppniseftirlitið (FTC) hefur áfrýjað ákvörðun um að heimila 69 milljarða dala kaup Microsoft á tölvuleikjafyrirtækinu Activision Blizzard. Beiðni samkeppniseftirlitsins um að stöðva kaupin var neitað af héraðsdómara í San Francisco.
Kaup Microsoft á Activision Blizzard, sem framleiðir meðal annars tölvuleikinn Call of Duty, yrðu stærstu kaup tölvuleikjasögunnar.
„Við erum vonsvikin að samkeppniseftirlitið haldi áfram að sækjast eftir einhverju sem hefur engan grundvöll. Við munum mótmæla öllum frekari tilraunum af þeirra hálfu á meðan við vinnum í þessu,“ segir Brad Smith, forseti Microsoft.
Samkeppniseftirlitið hefur sagt að kaupin myndu skaða samkeppni með því að veita Microsoft einkarétt á tölvuleikjum Activision. Bandaríski héraðsdómarinn sem fer fyrir málinu, Jacqueline Scott Corley, telur hins vegar ekki að samkeppniseftirlitið muni vinna málið.
Hún segir að samkeppniseftirlitið hafi ekki sýnt fram á að sameining þessara fyrirtækja myndi til að mynda fjarlægja Call of Duty frá Sony PlayStation leikjatölvum, eða að eignarhald Microsoft á Activision myndi draga úr samkeppni.
Málið hefur lengi verið til umræðu en þessi úrskurður er talinn vera sterkasta vísbending þess að Microsoft muni halda áfram með kaupin. Breska samkeppniseftirlitið hafði einnig lýst yfir svipuðum áhyggjum en virðast nú vera draga sig í hlé frá málinu.