Microsoft hefur náð samkomulagi um kaup á 4% hlut í London Stock Exchange Group (LSEG), móðurfélagi kauphallarinnar í London. Kaupin eru hluti af 10 ára samstarfssamningi LSEG og netrisans.

Samkomulagið felur í sér að Microsoft kaupi 4% hlut í LSEG af Blackstone, Thomson Reuters, kanadíska lífeyrissjóðnum CPP Investment Board og GIC, þjóðarsjóði Singapúr. Markaðsvirði hlutarins er um 1,5 milljarðar punda eða sem nemur tæplega 260 milljörðum króna

Í tilkynningu segir LSEG að samkomulagið feli m.a. í sér vöruþróun í samstarfi við Microsoft Azure, Microsoft AI og Microsoft Teams, sem geti aukið tekjuvöxt félagsins verulega.

Í umfjöllun Financial Times segir að samkomulagið komi í kjölfar þrýstings frá fjárfestum að LSEG sanni að 27 milljarða dala kaupin á greiningarfyrirtækisinu Refinitiv hafi borgað sig.

David Schwimmer, forstjóri LSEG, lýsti kaupunum á Refnitiv á sínum tíma sem tækifæri til að umbreyta kauphallarfélaginu í gagnafyrirtæki sem geti keppt við fyrirtæki á borð við Bloomberg. Samþætting starfseminnar hefur þó gengið erfiðlega.

Alphabet, móðurfélag Google, fjárfesti í CME Group, stærstu afleiðukauphöll heims, í fyrra fyrir einn milljarð dala samhliða 10 ára samstarfssamningi sem felur í sér að færa viðskiptakerfi CME í skýið. Nasdaq og Amazon Web Services tilkynntu um sambærilegt samstarf í fyrra.