Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðir til Álaborgar í Danmörku en fyrsta flugið til Álaborgar verður 7. júní 2025.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu en flogið verður alla þriðjudaga og laugardaga fram að 26. ágúst.
„Álaborg er sjarmerandi borg í norðurhluta Jótlands. Hún er fjórða stærsta borg Danmerkur og mjög vinsæll ferðamannastaður vegna sögu sinnar, fallegra garða og spennandi menningarlífs,“ segir í tilkynningu flugfélagsins.
Álaborg er þriðji áfangastaður Play í Danmörku en fyrir flýgur Play til Kaupmannahafnar allan ársins hring og til Billund yfir sumarmánuðina.
„Við erum virkilega ánægð að fjölga áfangastöðum okkar í Danmörku og geta þannig boðið þeim fjölda Íslendinga sem þar býr upp á hagkvæman kost til að komast til Íslands að heimsækja fjölskyldu og vini. Tengiflugið okkar til Norður-Ameríku mun einnig verða góð viðbót fyrir íbúa Álaborgar. Þetta eru því góðar fréttir fyrir þann stóra hóp fólks sem býr í vesturhluta Danmerkur og að sjálfsögðu Íslendinga sem vilja komast þangað í frí,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.