Úthlutunarnefnd, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði um úthlutun rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla, hefur lokið störfum í ár en alls fá 25 fjölmiðlaveitur styrk en í fyrra voru þær 19. Til úthlutunar var 381 milljón en þar af fóru ríflega 200 milljónir til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins.
Í tilkynningu á vef Fjölmiðlanefndar kemur fram að alls hafi borist 28 umsóknir um rekstrarstuðning og samtals var sótt um rekstrarstuðning að fjárhæð 917,5 milljónir króna. Þremur umsóknum var hafnað þar sem þær fylltu ekki öll skilyrði fyrir rekstrarstuðninginn.
Í lögum um fjölmiðla kemur fram að rekstrarstuðningur skuli að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjenda. Þá ráðist endanlegt hlutfall af umfangi og fjölda umsókna.
Kostnaður vegna umsýslu, auglýsinga og þóknunar fyrir störf úthlutunarnefndar nam 3,3 milljónum og var um 0,87% af 384 milljóna króna heildarfjárhæðinni.
Úthlutunarnefndina skipa Árni Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Stefán Svavarsson endurskoðandi og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.