Breski tækniauðjöfurinn Mike Lynch hefur verið sýknaður af ákæru um svik í Bandaríkjunum vegna sölu á hugbúnaðarfyrirtæki sínu til Hewlett-Packard árið 2011. Lynch seldi fyrirtækið fyrir um 11 milljarða dala og var salan sú stærsta sinnar tegundar í Bretlandi á þeim tíma.
Samkvæmt fréttamiðlinum BBC fann kviðdómur í San Francisco hann saklausan en Lynch hafði verið sakaður um að blása upp verðmæti fyrirtækisins Autonomy fyrir söluna.
Lynch hefði átt yfir höfði sér meira en 20 ára fangelsisdóm ef hann hefði verið fundinn sekur. Hann neitaði þó sök í málinu og gaf meðal annars vitnisburð til að verja sig í málinu. Þar hélt hann því fram að hann hefði einbeitt sér að tæknilega hluta fyrirtækisins, frekar en bókhaldinu.
„Ég er ánægður með dóminn í dag og þakklátur kviðdómnum fyrir athygli hans á staðreyndum síðustu tíu vikurnar. Ég hlakka til að snúa aftur til Bretlands og snúa mér aftur að því sem ég elska mest: fjölskyldu minni og nýsköpun á mínu sviði,“ sagði Lynch í yfirlýsingu.