Samningsviðræður á milli SA og Eflingar báru ekki árangur í dag verður fundað aftur klukkan tíu í fyrramálið. Þetta sagði Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, í samtali við fréttafólk rétt í þessu.
Samninganefndir Eflingar og SA hafa fundað stíft með Ástráði á undanförnum dögum og var sett fjölmiðlabann yfir helgi svo samningsaðilar gætu einbeitt sér að því að ljúka við gerð kjarasamninga.
Ástráður sagði hins vegar í samtali við fréttafólk nú rétt fyrir sex í kvöld að enn væri mikið bil á milli samningsaðila. Hann óttast að verkföll muni hefjast aftur á mánudag ef viðræður ganga ekki betur á morgun, að því er kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.
Hann sagði að deiluaðilar hefðu mismunandi sýn á hvaða svigrúm væri til staðar til launahækkana og bilið á milli þeirra væri einfaldlega of breitt.
„Svo dreymir menn eitthvað fallega í nótt, og kannski verður það lausnin. Hún kemur kannski til okkar í draumi,“ bætti Ástráður við í lokin.