Fanney B. Pétursdóttir, þjónustustjóri hjá Póstinum, segist hafa séð mikla aukningu í svokölluðum svikapóstum að undanförnu. Hún segir marga viðskiptavini hafa samband við þjónustuver Póstsins á degi hverjum vegna falsaðra skilaboða.

Algengt er að óprúttnir aðilar þykist vera íslensk fyrirtæki til að svíkja fé út úr fólki og er Pósturinn eitt þeirra fyrirtækja sem glæpamenn reyna að nýta sér.

Eitt algengasta svindlið felst í því að senda fölsuð skilaboð í tölvupósti eða smáskilaboðum og er þá viðtakanda sagt að hann eigi von á sendingu sem ekki hafi verið hægt að afhenda. Það sé þó einfalt að leysa úr málinu ef viðtakandi smellir á meðfylgjandi hlekk til að ganga frá greiðslu eða gefa upp viðkvæmar persónu- og greiðsluupplýsingar.

„Þess er líka krafist að viðskiptavinurinn bregðist strax við, gangi frá greiðslu eða staðfesti upplýsingar. Mörgum bregður og geta því auðveldlega gengið í gildruna í hálfgerðu óðagoti. Glæpamennirnir reyna nefnilega að spila inn á ótta og snögg viðbrögð svo fólk grípi hugsunarlaust til aðgerða og falli fyrir svindlinu,“ segir Fanney.

Karen Telma Birgisdóttir, tæknimaður í rekstri kerfa Póstsins, tekur í sama streng en hún segist einnig hafa séð aukningu í tilraunum netsvindlara til að líkja eftir heimasíðu Póstsins í von um að plata viðskiptavini.

Hún segir Póstinn vera með ákveðna verkferla varðandi svindlpósta en slíkir póstar eru tilkynntir til CERT-IS, netöryggissveitar íslenskra stjórnvalda, ásamt Google og Microsoft.

„Við vitum að þar er allt gert til að reyna að koma í veg fyrir þetta en það er erfitt því um leið og einni svindlsíðu er lokað opnar bara önnur. Við setjum líka reglulega inn fréttir og upplýsingar á heimasíðu okkar og samfélagsmiðla til að láta viðskiptavini vita í þeirri von að fólk gangi ekki í gildruna hjá svindlurunum.“