Fjöldi gjaldþrotaúrskurða það sem af er ári er meiri en allt árið 2022. Þannig voru kveðnir upp 383 gjaldþrotaúrskurðir allt árið í fyrra en það sem af er ári hafa 570 fyrirtæki verið úrskurðuð gjaldþrota. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu.

Gjaldþrotum fjölgað mest í byggingargeira

Gjaldþrotum hefur fjölgað í flestum atvinnugreinum en mestu munar um mikla fjölgun gjaldþrotaúrskurða í byggingarstarfsemi. Það sem af er ári hafa 259 fyrirtæki í geiranum verið úrskurðuð gjaldþrota, borið saman við 86 fyrirtæki í fyrra. Þá hefur orðið fjölgun gjaldþrota í heild- og smásölu þar sem kveðnir hafa verið upp 171 gjaldþrotaúrskurðir á fyrstu mánuðum ársins borið saman við 54 gjaldþrot í fyrra.