Lóðasala er hafin á ný í tveimur hverfum í Los Angeles þar sem skógareldar eyðilögðu þúsundir heimila fyrir minna en tveimur mánuðum síðan. Meira en 80 lóðir í Pacific Palisades og Altadena hafa verið skráðar á sölu frá því um miðjan febrúar.

Samkvæmt WSJ hafa sum svæði selst með afslætti en sumir fasteignasalar gerðu ráð fyrir að landverðmæti myndi lækka um hátt í 50%.

Seljendur hafa hins vegar verið að fara fram á svipað verð og fyrir eldana en þumalputtaregla hjá miðlurum kveður á um að lóðir sem urðu fyrir bruna gætu selst á 40-60% af sínu upprunalega verðmæti.

Í Altadena er búið að ljúka við kaup á fyrstu fjórum lóðasölum og var meðalverðið 69 dalir, eða um 9.500 krónur, á hvert ferfet. Sú upphæð er vel yfir 22 dala, eða þrjú þúsund króna, verðmiðann sem sást frá 2023 til 2024.

Fasteignasalinn Teresa Fuller segir að verðið á lóðum eigi eftir að hækka enn meira. Hún segist vera að ljúka við sölu á lóð fyrir 570 þúsund dali, eða um 79 milljónir króna, en það samsvarar 99 dölum á hvert ferfet.

Annar fasteignasali, Richard Schulman, segist hafa skrásett lóð aðeins átta dögum eftir að heimili eigandans brann í Pacific Palisades. Hann fékk þá meira en 60 fyrirspurnir, aðallega frá fjárfestum sem vildu annaðhvort breyta lóðinni eða endurbyggja einbýlishúsið og selja það síðan með hagnaði.