Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 3,0 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Langmesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka eða 1,2 milljarðar króna.

Íslandsbanki lækkaði mest eða um 2,1% í 63 viðskiptum og stóð gengi bankans í 116 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Það er 8,9% yfir útboðsgenginu í 90 milljarða króna útboði ríkisins í síðustu viku.

Í dag fóru í gegn fjögur viðskipti á markaði upp á meira en hundrað milljónir króna hver á bilinu 113,5-115,0 krónur á hlut.

Hlutabréfaverð Arion banka og Kviku banka féll einnig um meira eitt prósent í dag. Þá lækkaði gengi Skaga, móðurfélags VÍS og Fossa fjárfestingarbanka, um 0,8%.

Amaroq Minerals hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 1,4% í tæplega fimmtíu milljóna króna veltu. Gengi Amaroq stendur nú í 140,5 krónum á hlut og er um 23% lægra en í byrjun árs.