Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir það mikil vonbrigði að sjá hvernig stjórnsýslan brást í málefnum Danól ehf, dótturfélag Ölgerðarinnar en á endanum eru það neytendur sem tapa þegar ríkið fer svona fram.
Danól stefndi íslenska ríkinu á þriðjudaginn fyrir m. a. að hafa leynt mikilvægum gögnum bæði á sjórnsýslustigi og fyrir Landsrétti sem voru félaginu í hag. Ríkið hafði betur gegn Danól í deilum um tollskráningu á pítsuosti með viðbættri jurtaolíu og fékk Danól bakreikning upp á hátt í þrjú hundruð milljónir árið
„Það voru okkur mikil vonbrigði að sjá hvernig stjórnsýslan brást í þessu máli en sú leið sem eðlilegt er að fara þegar sterk rök og málefnalegar ástæður duga ekki til að snúa við, að okkar mati, röngum ákvörðunum hins opinbera, er að bera málið undir dómstóla,” segir í Andri Þór.
„Við erum þess fullviss að dómstólar komast að annarri niðurstöðu, enda ekki annað hægt. Niðurstaða stjórnsýslunnar er þess eðlis að réttlætiskenndin ein dugar til að fara þessa leið en auðvitað er aðalástæðan hagsmunir neytenda,“ segir Andri Þór.
„Þar kom skýrlega fram að ESB væri ósammála Skattinum“
Landsréttur dæmdi íslenska ríkinu í hag eftir áralangar deilur sem hófust er Bændasamtök Íslands og Mjólkursamsalan sóttu að stjórnvöldum um að pítsuosturinn, Festino IQF Mozzarella Pizza Mix, yrði flokkaður í 4. kafla tollskrárinnar, sem ber háa tolla, bæði magn- og verðtolla, í stað þess að flokkast í 21. kafla, sem ber enga tolla.
Fyrirtækið krefst þess í stefnu sinni gegn ríkinu að bindandi álit Skattsins, tollgæslustjóra frá 8. maí 2023, um tollflokkun vörunnar verði ógilt. En áður Landsréttur dæmdi í málinu höfðu íslenska ríkinu borist ný gögn sem ekki voru lögð fram fyrir dómi né fékk Danól að sjá þau, þrátt fyrir að þau hefðu verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Umrædd gögn eru meðal annars afstaða Evrópusambandsins og Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um hvernig eigi að flokka vöruna en ESB og WCO eru sammála tollflokkun Danól á vörunni. Formleg afstaða ESB um framkvæmd íslenskra tollyfirvalda var send Skattinum, hinn 5. október 2021, um fimm mánuðum áður en dómur Landsréttar gekk.
„Mótmælti sambandið þar tollaframkvæmd á Íslandi og taldi skýrt að varan skyldi falla undir 21. kafla hinnar sameiginlegu tollskrár. Kom þar skýrlega fram að ESB væri með öllu ósammála niðurstöðu skattsins og vék þar bæði að sjónarmiðum íslenskra tollyfirvalda og sjónarmiðum ESB. […] Sambærileg afstaða birtist í bréfi Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) til Skattsins, dags. 21. október 2021. Allt eru þetta gögn sem komu til vitundar stefnda [íslenska ríkisins] áður en dómur Landsréttar gekk. Þrátt fyrir það fékk stefnandi [Danól] ekki vitneskju um þau fyrr en um 7 mánuðum eftir það,“ segir í stefnu Danóls sem var þingfest á þriðjudaginn.
Tóku ákvörðun um að afhenda ekki gögnin
Þess ber að geta að ákvörðun tollgæslustjóra að flytja vöruna milli tollflokka, þvert á skráningar ESB og WCO, gerði innflutning hennar til landsins ómögulega þar sem álagning hárra gjalda leiddi til þess að enginn ávinningur var af því að selja hana.
Mun það óneitanlega vera ávinningur fyrir samkeppnisaðila Danól en fyrirtækið sakar Mjólkursamsöluna um að hafa þrýst á stjórnvöld að breyta tollskráningu en fjölmargir tölvupóstar milli MS, Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru meðal málsgagna í málinu.
Þar sem umræddur pítsuostur er fluttur inn frá Belgíu fellur hann undir lög um Samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Danól bendir á að í afstöðu Evrópusambandsins komi fram að með því að flytja vöruna úr 21. kafla tollskrár og í 4. kafla hafi ríkið brotið gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum sínum.
Danól reyndi að fá málið endurupptekið eftir að í ljós kom að umrædd gögn og afstaða ESB hefðu ekki verið lögð fram fyrir Landsrétti en Endurupptökudómur hafnaði beiðni fyrirtækisins.
Í beiðninni segir meðal annars:
„Það leiðir af skýlausum ákvæðum stjórnsýslulaga um upplýsingarétt að íslenska ríkinu (Skattinum) bar skylda til að afhenda endurupptökubeiðanda [Danól] þessi gögn málsins en lét hjá líða að gera það. Þá leiðir af almennum reglum stjórnsýsluréttar að íslenska ríkinu bar að leggja fram þessi gögn fyrir dómi, sem og önnur sem kynnu að upplýsa málið, en það var ekki gert. Má því ljóst vera að íslenska ríkið leyndi bæði aðila að stjórnsýslumáli, gagnaðila fyrir dómi og dómstóla að mikilvægum gögnum, sem hefðu haft áhrif við úrlausn málsins.“
Danól bendir enn fremur á að íslenska ríkið aflaði gagnanna sjálft og „tók þá sjálfstæðu ákvörðun að hvorki leggja gögnin fram né upplýsa endurupptökubeiðanda um tilvist þeirra“.
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun Viðskiptablaðsins þar sem meðal annars er farið yfir tölvupóstsamskipti Bændasamtaka Íslands, lögmanna MS, Fjármálaráðuneytisins og Skattsins áður en ákvörðun var tekin um að breyta tollskráningunni.
Áskrifendur geta lesið umfjöllunina hér.