Snæbjörn Ingólfsson, framkvæmdastjóri hjá alþjóðlega tæknifyrirtækinu Itera, segir mikla vöntun á sérfræðingum í upplýsingatækni á Íslandi. Íslendingar þurfi að horfa til landa í Mið- og Austur-Evrópu, þar á meðal til Úkraínu þar sem upplýsingatækni og hugverkaiðnaður blómstrar þrátt fyrir stríðið þar í landi.
Í Úkraínu er Itera með aðgang að tæplega 300 þúsund manna markaði af sérfræðingum í upplýsingatækni. Þá er Itera einnig með tvær skrifstofur í Slóvakíu, ásamt skrifstofum í Tékklandi og Póllandi.
Um 80% af fyrirtækjum sem tóku þátt í könnun Samtaka iðnaðarins (SI) í byrjun sumars sögðust vanta starfsfólk í upplýsingatækni til þess að viðhalda starfsemi sinni, og styðja við áframhaldandi vöxt í upplýsingatækni. Forsvarsmenn flestra fyrirtækja telja sig vanta á bilinu eitt til fimm stöðugildi til þess að viðhalda núverandi starfsemi, en dæmi eru um að fyrirtæki vanti allt að 80 nýja starfsmenn. Þá kom fram að af svörum fyrirtækjanna megi dæma að þau geri ráð fyrir að um helming starfsmanna þurfi að sækja til annarra landa.
„Þrátt fyrir stríðið í Úkraínu hafa tæplega 300 þúsund sérfræðingar í upplýsingatækni haldið áfram að starfa þar í landi. Itera er með starfsstöð í Úkraínu og hefur haldið áfram að leita að og ráða sérfræðinga til sín. Sérfræðingar í upplýsingatækni í Úkraínu eru með mjög hátt menntunarstig og mikla reynslu. Sérfræðingar þar í landi eru að skila frábærri vinnu þrátt fyrir hið hörmulega ástand sem ríkir í landinu eftir innrás Rússa. Upplýsingatækni og hugverkaiðnaður spilar stórt hlutverk í útflutningstekjum Úkraínu," segir Snæbjörn.
Itera opnaði á síðasta ári skrifstofu í Reykjavík en aðalskrifstofur fyrirtækisins eru í Noregi. Itera sérhæfir sig í að skapa sjálfbær og stafræn viðskipti og með opnun skrifstofunnar í Reykjavík stefnir fyrirtækið á að auka umsvif sín hér á landi.
Snæbjörn segir að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar á Íslandi hafi numið 192 milljörðum króna á síðasta ári eða 16% af útflutningstekjum íslenska þjóðarbúsins samkvæmt tölum frá SI. Tekjurnar hafi nær tvöfaldast á innan við einum áratug.
„Vöntunin á sérfræðingum í upplýsingatækni er gríðarlega mikil hér á landi. Nú á dögunum voru um 70 störf í upplýsingatækni auglýst á Alfred.is. Þetta er orðið að nokkurs konar kapphlaupi um sérfræðingana. Það eru öll fyrirtæki á einhverri stafrænni vegferð og Itera getur stutt við þau verkefni frá upphafi til enda. Það eru mikil tækifæri í þessum geira en það er ljóst að ef vaxtaáætlanir í hugverkaiðnaði á Íslandi eiga að ganga eftir þarf að fjölga sérfræðingum umtalsvert á næstu árum. Samtök iðnaðarins hafa talað um að fjölga þurfi um allt að níu þúsund sérfræðingum á næstu fimm árum sem er alveg rökrétt að mínu mati,“ segir Snæbjörn enn fremur.