Þrátt fyrir að Íslandsbanki sé nýbúinn að skila uppgjöri fyrsta ársfjórðungs beinast nú flest augu að sölu á hlut ríkisins í bankanum en almennt hlutafjárútboð hófst í gærmorgun. Grunnmagn útboðs nær til allt að 376.094.154 hluta í Íslandsbanka, eða 20% af heildarhlutafé bankans. Miðað við útboðsgengi í tilboðsbók A má ætla að söluandvirði ríkisins verður a.m.k. 40 milljarðar króna ef full áskrift fæst. Þá hefur fjármálaráðherra heimild til að auka útboðsmagnið ef umframeftirspurn verður til staðar í útboðinu. Samanlagt geta grunnmagn útboðsins og möguleg magnaukning numið öllum eftirstandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka, eða 45,2% af almennum hlutum bankans.
Salan felur í sér markaðssett útboð þar sem einstaklingar hafa forgang. Þátttakendum í útboðinu verður skipt niður á þrjár tilboðsbækur: A, B og C.
Í tilboðsbók A verður einstaklingum tryggður forgangur og lægsta verð. Verð miðast við meðalverð hlutabréfa í Íslandsbanka síðustu 15 daga fyrir birtingu útboðslýsingar, eða síðasta dagslokagengi, með allt að 5% afslætti og er 106,56 krónur á hlut. Í tilboðsbók B verður stuðst við hollenskt fyrirkomulag, þar sem einstaklingar og lögaðilar geta tekið þátt. Verð má þó aldrei verða lægra en verð A-bókarinnar. Tilboðsbók C veitir svo eftirlitsskyldum fagfjárfestum, sem gera tilboð fyrir eigin reikning með eignir umfram 70 milljarða króna, hefðbundnara úthlutunarferli og er að sögn fjármálaráðuneytisins talið geta aukið selt magn af bréfum í bankanum. Verð í tilboðsbók C er það sama og myndast í tilboðsbók B.
Jóni Guðna Ómarssyni, bankastjóra Íslandsbanka, líst vel á þetta fyrirkomulag. „Það var svipuð leið farin í Grikklandi við sölu á hlut ríkisins í banka í fyrra sem heppnaðist mjög vel. Við erum því bjartsýn og fögnum því að almenningur fái að taka þátt með þetta afgerandi hætti. Á sama tíma er verið að stilla upp þremur tilboðsbókum sem er nokkuð óvenjulegt og því mikilvægt að fjárfestar kynni sér fyrirkomulagið vel. Það verður spennandi að sjá hver útkoman verður.“
Rúm þrjú ár eru síðan ríkið seldi síðast hlutabréf í Íslandsbanka er 22,5% hlutur í bankanum var seldur í lokuðu útboði með tilboðsfyrirkomulagi. Þó að erfitt sé að halda öðru fram en að það fyrirkomulag hafi reynst fjárhagslega hagfellt fyrir ríkið var framkvæmdin ekki óumdeild. Einhverjar brotalamir reyndust vera í framkvæmd sölunnar sem leiddu m.a. til þess að Íslandsbanki féllst á að greiða Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands 1,2 milljarða króna í sekt.
Ríkissjóður á enn 45,2% hlut í bankanum en ætla má að búið væri að selja stærri hlut ef síðasta útboð hefði ekki valdið jafn miklu fjaðrafoki og raun bar vitni. Spurður um hvort hann óttist að fyrirkomulagið sem nú verður beitt kunni að hafa litast um of af áherslum stjórnmálafólks um að fyrirkomulagið verði óumdeilt, þá jafnvel á kostnað þess verðs sem ríkið fær í endurgjald fyrir eignarhlutinn, segir Jón Guðni að tíminn verði að leiða það í ljós. Hann ítrekar þó að honum lítist vel á fyrirkomulagið og bíði spenntur eftir niðurstöðunni.
Hann skynjar mikinn áhuga innlendra sem og erlendra fjárfesta fyrir útboðinu. „Á síðustu mánuðum höfum við hitt mikinn fjölda fjárfesta, bæði innanlands sem og erlendis. Þetta eru mjög ólíkir fjárfestar, allt frá því að vera einstaklingar upp í risastóra alþjóðlega fjárfesta sem hafa mikla kaupgetu. Heilt yfir hefur okkur verið mjög vel tekið. Við höfum m.a. átt góða fundi með fjárfestum á Norðurlöndunum, í London og í Bandaríkjunum. Endurgjöf eftir fundina hefur verið jákvæð og það verður spennandi að sjá hverjir ákveða að taka þátt í útboðinu. Áhuginn ræðst svo auðvitað einnig af markaðsaðstæðum en að því gefnu að þær verði góðar er ég mjög bjartsýn.“
Nánar er rætt við Jón Guðna í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og viðtalið í heild hér.