Hagstofan birti gögn um vöruviðskipti í byrjun vikunnar. Þar kom fram að vöruskiptahalli í október 2022 nam 52,7 milljörðum króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um 12,9 milljarða í október 2021 á gengi hvors árs fyrir sig.

Konráð S Guðjónsson, efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins, telur ólíklegt að Ísland verði með viðskiptaafgang á næstu misserum.

„Ef við erum alveg raunsæ á stöðuna þá er þessi viðskiptaafgangur, sem margir voru búnir að reikna með að myndi myndast á þessu ári og á næsta ári, ekki að fara verða að veruleika að óbreyttu. Hallinn er skilaboð til okkar sem þjóðar að við erum að eyða um efni fram. Ef við værum með viðskiptahalla vegna stórkostlegs fjárfestingarátaks, eins og við þekkjum t.d. úr hagsögunni á uppbyggingarskeiðum stóriðju, þá væri þetta ekki halli til að hafa áhyggjur af. En þetta virðist vera mjög neysludrifið og að einhverju leyti afleiðing af halla ríkissjóðs og sveitarfélaga auk hás launastigs. Það eru ýmsir þættir sem eru að knýja áfram þennan halla sem ég efast um að sé heilbrigt til lengri tíma, miðað við uppbyggingu efnahagslífsins.“

Konráð telur að komandi kjarasamningar spili stóra rullu í því hvort viðskiptajöfnuður muni nást á næstu misserum. Ísland sé með hátt launastig og launakostnaður hafi áhrif á samkeppnishæfni útflutningsgreinanna.

„Launakostnaður er tveir þriðji af öllum útgjöldum í hagkerfinu og hefur áhrif á samkeppnishæfni útflutningsgreina, hvernig þeim gengur og hvernig eftirspurn okkar er erlendis. Þróun þessara þátta ræður svo aftur miklu um viðskiptajöfnuð við útlönd.“

Hann telur þó fyrst og fremst mikilvægast er varðar kjarasamningana að þeir taki tillit til breyttrar stöðu í hagkerfinu. „Við erum ekki í sömu stöðu og fyrir nokkrum árum síðan þegar við vorum með töluverðan viðskiptaafgang, batnandi viðskiptakjör og svo framvegis. Ef við skoðum tölurnar í dag erum við raun í allt annarri stöðu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.