Kynning á uppfærðum samgöngusáttmála fyrir bæjarfulltrúum á höfuðborgarsvæðinu stendur nú yfir. Mörgum bæjarfulltrúum er brugðið yfir mikils kostnaðarauka frá þeirri áætlun sem kynnt var fyrir rúmu ári, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Bjarni Benediktsson mun í framhaldinu kynna hinn uppfærða samgöngusáttmála fyrir kjörnum fulltrúum í dag.

Áformað er að skrifa undir sáttmálann í hádeginu á morgun, rúmum sólarhing eftir að hann var fyrst kynntur fyrir bæjarfulltrúum, samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Kostnaður vegna uppfærðs samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu hljóðar nú í kringum 310 milljarðar króna, líkt og Morgunblaðið greindi frá í morgun. Það er um tvöfalt hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í september 2023 en þá var kostanaðurinn áætlaður um 160 milljarðar króna.

Upphaflegi sáttmálinn frá 2019 kvað á um 15 ára framkvæmdatíma. Nú stendur til að lengja framkvæmdatímann um sjö ár, m.a. vegna hærri kostnaðaráætlunar.