Ankeri Solutions, sem býr til og þróar skýjalausnir fyrir gámaskipaflutningafyrirtæki, var rekið með 50 milljóna króna hagnaði í fyrra samanborið við 29 milljóna króna tap árið áður.
Vöxtur félagsins hefur verið mikill frá stofnun þess árið 2016. Tekjur námu 319 milljónum í fyrra og jukust um 72% á milli ára. Tekjurnar hafa nærri þrefaldast frá árinu 2022 þegar þær námu 111 milljónum.
Í ársreikningi kemur fram að félagið hafi aukið sölutekjur sínar um 120% milli ára og námu þær 216 milljónum. Á sama tíma hafi rekstrarkostnaður aukist um 17% og meðalstöðugildum fjölgað um þrjú.
Félagið gaf út nýtt hlutafé á árinu að verðmæti 186,6 milljónir króna. Voru öll breytanleg skuldabréf auk áfallinna vaxta gerð upp með hinu nýja hlutafé.
Sérhæfði vísisjóðurinn Frumtak III, sem er rekinn af Frumtak Ventures, átti 29% hlut í Ankeri í lok árs 2024. Frumtak III fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru á fyrstu stigum fjármögnunar og þykja vænleg til vaxtar á alþjóðlegum mörkuðum.
Kristinn A. Aspelund er framkvæmdastjóri og annar stofnenda Ankeri en hann á 24% hlut í félaginu. Meðstofnandi hans, Leifur A. Kristjánsson, á jafn stóran hlut. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins átti 14% hlut í félaginu í lok árs.
Brekkubyggð ehf, félag í eigu Guðborgar Auðar Guðjónsdóttur og Hermanns Kristjánssonar, stofnanda og fyrrum framkvæmdastjóra Vaka, hátæknifyrirtækis sem býr til búnað fyrir fiskeldi, átti 9% hlut.
Lykiltölur / Ankeri Solutions
2023 |
186 |
393 |
152 |
(29) |
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.