Danski fjárfestirinn Jeanette Fangel Løgstrup segir í samtali við Børsen að hún hafi næstum glatað öllum auð sínum í efnahagshruninu 2008 þar sem hún hafði fjárfest alltof mikið í Danske bank.
Løgstrup fer yfir fjárfestingastefnu sína í hlaðvarpi danska viðskiptamiðilisins en þar segir hún að eignasafn sitt hafi skilað um 13%til 15% ávöxtun á ári alveg frá hruni.
Løgstrup kennir viðskiptafræði við Copenhagen Business School en hún hefur einnig verið í stjórnendastöðum hjá Danske Bank, Codan og Carl Bro Group.
Spurð um sínar bestu og verstu fjárfestingar á ferlinum segir hún án efa Jyske Bank og Novo Nordisk vera bestu fjárfestingar sínar.
„Ég hef verið hluthafi í Jyske bank í að verða fjögur ár núna og hefur virði bréfanna meira en tvöfaldast frá því ég keypti þannig það hefur verið ágæt fjárfesting. Novo-bréfin hafa margfaldast einnig en ég hef verið hluthafi í Novo í fjölmörg ár og á enn öll bréfin þar, þar sem mér finnst það mjög mikilvægt fyrirtæki,“ segir Løgstrup.
Løgstrup segir að hún líkt og aðrir fjárfestir telji að Novo Nordisk sé á góðri vegferð og því hefur hún aukið við hlut sinn í danska lyfjafyrirtækinu hægt og rólega.
„Um þessar mundir eru Novo bréfin um 15% af allri hlutabréfaeign minni en ég hef það sem reglu að ekkert eitt félag myndi meira en 20% af eignasafninu,“ segir Løgstrup.
Stöðug magapína dagana eftir hrun
Spurð um sína verstu fjárfestingu á ferlinum segir hún það án efa vera hlutabréfakaup í Danske Bank í aðdraganda efnahagshrunsins 2008.
„Það endaði sem algjör hörmung en það var mjög erfiður tími fyrir alla í fjármálageiranum. Við sem vorum í hringiðunni vissum ekki einu sinni hvernig þetta myndi allt fara enda gerðust hlutirnir hratt undir lok árs 2008. Hlutabréf í Danske bank hrundu í verði og ég tapaði um 80-90% af minni fjárfestingu,“ segir Løgstrup.
Hún segir tilfinninguna dagana eftir hrunið hafa verið eins og stöðug magapína.
„Ég þurfti einfaldlega að leggjast í sófann þar sem ég var í áfalli yfir því að hafa glatað svona stórum hluta af eignum mínum,“ segir Løgstrup.
Hún vildi ekki nefna neinar upphæðir í samtali við Børsen en segir þó að um sé að ræða töluverða upphæð sem hvarf á skömmum tíma.
„Það er aldrei gaman þegar um 90% af virði hlutabréfa hverfur, alveg sama hvaða bréf það er, en þá stendurðu frammi fyrir vali. Tekurðu síðustu prósenturnar með þér heim eða ákveður þú að halda í bréfin í von um að þau hækki. Ég valdi hið síðarnefnda,“ segir Løgstrup.