Jóhann Páll Jóhanns­son, ráðherra um­hverfis-, lofts­lags- og orkumála, sagði á vindorku­fundi KPMG og Orku­kla­sans í gærmorgun að beislun nýrra orku­leiða væri lykil­at­riði til að stuðla að bættu orkuöryggi og auknum sveigjan­leika orku­kerfisins.

„Við þurfum að leysa úr óvissu þegar kemur að greiðslu fast­eigna­gjalda af orku­mann­virkjum. Ég held að ef við náum ekki sam­stöðu um þetta þá komumst við ósköp lítið áfram og náum engri sam­félags­legri sátt um vindorku­kosti. Því tel ég ein­boðið að teikna verði upp skýra mynd af því hvernig ávinningur af vindorku, sem og öðrum orku­kostum, skili sér með sann­gjarnari hætti í nær­sam­félagið,“ sagði Jóhann Páll.

Jóhann sagði jafn­framt að rík sam­staða um mikilvægi þessara mála ríkti innan ríkis­stjórnarinnar.

„Hér er úr­lausna þörf og það kallar á sam­hæfða vinnu milli míns ráðu­neytis og svo fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytisins og sam­göngu- og sveitar­stjórnarráðu­neytisins,“ sagði Jóhann Páll.

„Mark­mið okkar í orkumálum eru skýr. Við ætlum að ryðja burt hindrunum og liðka fyrir fram­kvæmdum. Við ætlum að auka orkuöflun, styrkja flutnings­kerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við raf­orkuöryggi, orku­skipti og verðmæta­sköpun um allt land.“

Ný að­ferðafræði við fram­kvæmd fast­eigna­mats

Sylvía Vil­hjálms­dóttir, verk­efna­stjóri hjá KPMG, fór í erindi sínu yfir að­ferðafræði, sem KPMG hefur þróað ásamt COWI og Gna­ris fyrir Húsnæðis- og mann­virkja­stofnun, við fram­kvæmd fast­eigna­mats á orku­mann­virkjum og dreifingu skatt­tekna til nær­sam­félaga með það að mark­miði að sveitarfélög fái sann­gjarna hlut­deild.

„Við höfum nú lagt fram til­lögu að að­ferðafræði og tækni­legum lausnum sem hægt er að nýta til grund­vallar út­reikningum og skiptingu skatt­tekna á nær­sam­félög,“ sagði Sylvía.

„Hluti af því er hönnun sýni­leikamódels, þar sem áhrifa­svæði vindorku­vera eru metin út frá radíus um­hverfis túr­bínu, en þannig er hægt að reikna sann­gjarna dreifingu skatt­tekna af virkjunum, fyrir þau sveitarfélög sem eru í nánd við þær.”

Sylvía Vil­hjálms­dóttir, verk­efna­stjóri hjá KPMG á fundinum í morgun.
© Anton Brink (Anton Brink)

Tugmilljarða sparnaður af snjöllu grænu kerfi

Anna-Bryndís Zings­heim Rúnu­dóttir, verk­efna­stjóri hjá KPMG, fór síðan yfir bestunar­líkan til hönnunar á framtíðar­orku­kerfi Ís­lands til fullra orku­skipta árið 2050.

Anna-Bryndís Zings­heim Rúnu­dóttir, verk­efna­stjóri hjá KPMG
Anna-Bryndís Zings­heim Rúnu­dóttir, verk­efna­stjóri hjá KPMG
© Anton Brink (Anton Brink)

Þar sýndi hún fram á að lausnir eins og orku­geymsla í formi raf­geyma og geymslutanka fyrir vetni og ra­f­elds­neyti auk sveigjan­legrar eftir­spurnar geta leitt til hag­kvæmara og um­hverfis­vænna orku­kerfis.

Auk þess er hægt að nýta þessar lausnir í jöfnun á óstöðug­leika vinds.

„Sam­kvæmt grófum út­reikningum má áætla að sparnaður við að byggja upp snjallt, grænt orku­kerfi til framtíðar hlaupi á tug­milljörðum króna á ári hverju ef borinn er saman við kostnað við inn­flutning á jarðefna­elds­neyti í dag. Og þá eru um­hverfisáhrifin ótalin,“ sagði Anna-Bryndís.