Ríkisstjórn Grænlands hefur samþykkt umhverfisáhrifamat (EIA) og samfélagslegt áhrifamat (SIA) á Nalunaq-námu málmleitarfélagsins Amaroq í Grænlandi.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu félagsins er þetta mikilvægur áfangi í þróun á námunni sem er hornsteinn í gullverkefni félagsins.
„Ég get ekki undirstrikað nægilega vel mikilvægi þess að ná þessum áfanga sem við höfum stefnt að síðustu fjögur ár. Ferlið hefur verið langt og strangt, þar á meðal ótal vinnustundir við gerð tæknilegra skýrslna til stuðnings verkefninu.
Fyrir hönd Amaroq langar mig að nota tækifærið og þakka stjórnvöldum á Grænlandi fyrir samþykki þeirra og stuðning og ráðgjöfum okkar WSP og Copenhagen Social, sem unnu náið með okkur í þessu máli. Við erum staðráðin í að tryggja að allt verði gert með sóma á öllum sviðum á þeirri vegferð sem framundan er í að koma Nalunaq vinnslusvæðinu í framleiðslu,“ segir Eldur Ólafsson.
Samkvæmt tilkynningu er tilgangur EIA að greina, spá fyrir og miðla hugsanlegum umhverfisáhrifum Nalunaq-verkefnisins í öllum þess fösum - byggingu, rekstri, lokun og eftir lokun.
Tilgangur SIA er að meta áhrif verkefnisins á núverandi félagslegar aðstæður. Jákvæð félagsleg áhrif sem voru greind í matinu oru meðal annars að náman skapi atvinnutækifæri, og tækifæri fyrir grænlensk fyrirtæk sem veita vörur og þjónustu. Þá býr náman einnig til opinberar tekjur í gegnum greiðslu þóknana, fyrirtækja- og tekjuskatta.
„Að viðhalda bestu starfsvenjum í umhverfis- og félagsmálum er lykilatriði fyrir Amaroq til stuðnings við okkar kjarnatilgang; að skapa grænlenska arfleifð sem er jákvæð. Að tryggja þessi samþykki staðfestir að starfsemi félagsins er að fullu í samræmi við leiðbeiningar og stefnur ríkisstjórnarinnar, og að hún nýtur fulls stuðnings frá okkar heimamönnum sem viðurkenna að við berum okkur ábyrgð á hæstu stöðlum,” segir Joan Plant, framkvæmdastjóri Amaroq,
„Við hlökkum nú til að vinna með ríkisstjórn Grænlands og Kommune Kujalleq að áhrifabótasamningnum (IBA), sem við stefnum að hafa á sínum stað fyrir lok ársins,“ segir Plant.