Lög nr. 140/2018 um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skyldar tilkynningarskylda aðila til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna án tafar um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða vart verði við slíka ólögmæta starfsemi. Þar á meðal þurfa tilkynningarskyldir aðilar að komast að því hvort viðskiptamenn þeirra séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
„Markmiðið með þessum lögum er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það er þó ekki þannig að allir þeir sem falla í þennan hóp, að vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla, séu viðriðnir refsiverða háttsemi, en þessir aðilar hafa þó umtalsverð ítök og því mikilvægt að veita þeim aðhald svo þeir misnoti ekki aðstöðu sína, sér og sínum til hagsbóta.” segir Arna Björg Jónasdóttir, lögfræðingur og viðskiptastjóri hjá Creditinfo.
Arna bendir á að tilkynningarskyldir aðilar beri sjálfir ábyrgð á því að kanna hvort viðskiptamenn þeirra séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Þeim sé skylt að hafa viðeigandi kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður, eða raunverulegur eigandi, sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og PEP grunnur Creditinfo aðstoðar við það.
„Við búum í alþjóðasamfélagi og þetta er ekki eins og í gamla daga. Núna er allt alþjóðlegra, og samkvæmt gögnum frá Ríkislögreglustjóra er stunduð skipulögð brotastarfsemi og peningaþvætti hér á landi. Við lentum á gráum lista og til að komast þaðan þurfti að grípa til aðgerða og efla varnir gegn peningaþvætti. Hluti af því er að tilkynningaskyldir aðilar áhættugreini og meti viðskiptavini sína.“
Nánar er fjallað um stjórnmálaleg tengsl í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.