Græni iðngarðurinn, Iceland Eco-Business Park (IEBP), er vistvænn iðngarður staðsettur á Reykjanesi. Garðurinn er verkefni á vegum Reykjanesklasans, sem er í meirihluteigu Kjartans Eiríkssonar og Þórs Sigfússonar.

Viðskiptablaðið greindi frá því í vikunni að norska nýsköpunar- og umhverfisfyrirtækið Rockpore hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við Græna iðngarðinn á Suðurnesjum um leigu á ríflega 5 þúsund fermetra húsnæði. Rockpore hyggst hefja starfsemi á seinni hluta næsta árs.

Húsnæði Græna iðngarðsins er samtals um 35 þúsund fermetrar. Búið er að undirrita samninga eða viljayfirlýsingar um leigu á 16 þúsund fermetrum þannig að enn er töluvert laust til leigu.

„Við eigum viðræðum við fimm til sex fyrirtæki í viðbót um að koma inn í Grænu iðngarðana,” segir Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Græna iðngarðsins. „Við gerum kannski ekki ráð fyrir því að það gangi allt eftir en ef það myndi gerast þá yrðum við komnir á þann staða að þurfa að byggja meira á svæðinu. Lóðin er um 300 þúsund fermetrar og að langstærstum hluta klár til uppbyggingar.”

Óhætt er að segja að atvinnuuppbyggingin á Reykjanesi hafi tekið miklu breytinum á fáum árum. Fyrir um átta árum var kísilmálmverksmiðju United Silicon lokað og fyrir fimm árum var endanlega ákveðið að hætta við byggingu álvers við Helguvík. Í staðinn fyrir þennan þunga iðnað er Græni iðngarðurinn kominn í húsnæði álversins en auk hans hefur Auðlindagarðurinn verið starfræktur frá árinu 2014. Húsnæði Græna iðngarðsins var upphaflega byggt fyrir álver Norðuráls í Helguvík.

„Þetta eru miklar breytingar og ég held að þessi þróun muni halda áfram því á Íslandi eru gríðarleg tækifæri,” segir Kjartan. „Maður heyrir það líka á sveitarfélögunum að þau eru ekki mikið að horfa á stóriðjuuppbyggingu heldur miklu frekar mildari iðnað, þar sem ólíkum aðföngum er blandað saman en ekki bara orkunotkun.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.