Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði fjórða mánuðinn í röð og mældist 7,7% í október, samanborið við 8,2% í september, og hefur ekki verið minni síðan í janúar. Greiningaraðilar áttu von á að hún yrði nær 8,0%. Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa hækkað um 3,2%-6,2% í dag.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 6,3% í október. Til samanburðar mældist hún 6,6% í september, og hafði ekki verið meiri í fjóra áratugi. Greiningaraðilar áttu von á kjarnaverðbólgan yrði nær 6,5% í október.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur hækkað stýrivexti um 0,75 prósentur við hverja af síðustu fjórum vaxtaákvörðunum. Verðlagning á framvirkum vaxtasamningum gefa til kynna að markaðurinn telji 80% líkur á að bankinn byrji nú að hægja á vaxtahækkunarferlinu og hækki vexti um 0,5 prósentur við næstu boðuðu vaxtaákvörðun þann 14. desember.

Hlutabréfamarkaðir víða um heim tóku vel í verðbólgutölurnar. Það mátti sem dæmi sjá hlutabréf í íslensku Kauphöllinni taka við sér upp úr hádeginu í dag.

Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna í dag:

  • S&P 500: +4,7%
  • Nasdaq Composite: +6,2%
  • Dow Jones Industrial Average: +3,2%