Evrópskir hlutabréfamarkaðir opnuðu eldrauðir í morgun eftir að seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands hækkuðu stýrivexti. Evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan, breska FTSE 100 vísitalan og íslenska úrvalsvísitalan hafa allar fallið um 2% eða meira í dag.

Öll félög íslenska aðalmarkaðarins, að Skel fjárfestingafélagi undanskildu, hafa lækkað frá opnun Kauphallarinnar. Icelandair leiðir lækkanir en gengi flugfélagsins hefur fallið um meira en 5% og stendur nú í 1,39 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.

Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti í gær um 0,75 prósentur, meira en hann hafði áður gefið til kynna. Bankinn hefur ekki hækkað vexti meira í einu skrefi í tæpa þrjá áratugi. Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, hækkaði vexti um 25 punkta í morgun.

Í umfjöllun Financial Times segir að markaðsaðilar hafi upplifað létti við ummæli Jay Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, um að vaxtahækkanir af þessari stærðargráðu yrðu fátíðar. Hins vegar hafi ótti um viðvarandi háa verðbólgu vegið þyngra. Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,6% í maí og hefur ekki verið meiri í fjóra áratugi. .

Þá hækkaði Seðlabanki Sviss (SNB) vexti um hálft prósent í gær sem var umfram spár greiningaraðila. Um er að ræða fyrstu vaxtahækkun svissneska seðlabankans í fimmtán ár.

„Ef þeir eru að hækka vexti, þá er verið að senda skilaboð til markaða að seðlabankar horfi á sumarið sem síðasta tækifærið til að gera eitthvað varðandi verðbólgu áður en við lendum í alþjóðlegri niðursveiflu,“ hefur Financial Times eftir sérfræðingi á gjaldeyrismörkuðum hjá hollenska bankanum ING.