Hlutabréf bandarískra tæknifyrirtækja hafa lækkað umtalsvert í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag. Gengi hlutabréfa Nvidia hefur lækkað um ríflega 11%, Microsoft um 6%, Amazon um 5%, Meta um 5% og Alphabet, móðurfélag Google, um 4%.

Þá hefur hlutabréfaverð evrópska tæknifyrirtækisins ASML, stærsta fyrirtæki Hollands, lækkað um 10% í fyrstu viðskiptum í dag. Stoxx Europe 600 technology vísitalan hefur lækkað um 5% í dag.

Lækkanir eru raktar til framfara kínverska gervigreindarfyrirtækisins DeepSeek sem sem gaf í síðustu viku út nýtt risamállíkan (e. large language model) sem þykir álíka öflugt og líkön bandarísku samkeppnisaðilanna OpenAI og Meta, að því er segir í frétt Financial Times.

Kínverska sprotafyrirtækið segist hafa náð framförum í að þjálfa líkön með mun færri Nvidia örgjörvum en bandarísku samkeppnisaðilar þess.

Auknar áhyggjur eru nú uppi um hvort Bandaríkin geti viðhaldið forskoti sínu á sviði gervigreindar með milljarða dala fjárfestingum í örgjörvum og hversu arðbærar slíkar fjárfestingar eru.

Fjárfestingar stórra bandarískra tæknifyrirtækja í gervigreind nam 224 milljörðum dala í fyrra samkvæmt áætlun UBS. Bankinn áætlar að gervigreindarfjárfesting umræddra fyrirtækja verði í kringum 280 milljarðar dala í ár.