Helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna hafa lækkað um 1,6%-2,0% í viðskiptum dagsins. Lækkanir á hlutabréfamarkaðnum í Bandaríkjunum eru raktar til áhyggja um frekari vaxtahækkanir hjá helstu seðlabönkum heims til að ná tökum á verðbólgu.
Í umfjöllun Financial Times er bent á að S/P Global composite PMI vísitalan, sem mælir virkni í framleiðslu- og þjónustugeirum, hafi mælst 50,2 í febrúar og ekki verið hærri í átta mánuði. Þegar gildi hennar er yfir 50 gefur það vísbendingar um vöxt í framleiðslu milli mánaða en samdrátt ef hún er undir 50.
Nýju PMI tölurnar voru talsvert umfram væntingar greiningaraðila sem áttu von á að vísitalan yrði nær 47,5.
PMI-mælingin er frekari vísbending um styrk bandaríska hagkerfisins þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir í fyrra. Fjárfestar hafi verið að færa niður spár um þróun á hlutabréfaverði og gera jafnframt ráð fyrir hækkandi ávöxtunarkröfu vegna væntinga um meiri vaxtahækkanir hjá Seðlabanka Bandaríkjanna.
Ávöxtunarkrafa á tveggja ára bandarískum ríkisskuldabréfum hækkaði um 9 punkta, upp í 4,7%, og hefur ekki verið hærri í ár. Þá hækkaði ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréfum upp í 3,9% og hefur hún ekki verið hærra frá því í byrjun nóvember.
Lækkun helstu hlutabréfavísitala Bandaríkjanna það sem af er degi:
- S&P 500: -1,6%
- Nasdaq Composite: -2,0%
- Dow Jones Industrial Average: -1,6%