Samkvæmt greiningu Samtaka iðnaðarins á yfirvofandi viðskiptastríði milli Bandaríkjanna og Evrópu á Ísland „mikla hagsmuni" að gæta á báðum efnahagssvæðum.
Evrópumarkaður er mikilvægasti markaður Íslands en tugmilljarða útflutningur er einnig til Bandaríkjanna og fer hann vaxandi, samkvæmt SI.
„Það er því mikilvægt að Ísland gæti hagsmuna sinna bæði gagnvart ESB og Bandaríkjunum, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskan útflutning og þar með hagkerfið og samfélagið allt,“ segir í greiningu samtakanna.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá hófst viðskiptastríð um helgina er Donald Trump forseti Bandaríkjanna ákvað að setja 25% tolla á Kanada og Mexíkó.
Þeim hefur þó verið frestað um mánuð er bæði lönd ákváðu að verða við vilja Bandaríkjaforseta um að auka landamæraeftirlit.
Trump lagði 10% toll á innflutningsvörur frá Kína og ákváðu kínversk stjórnvöld í nótt að setja nýja tolla á innflutning frá Bandaríkjunum, þar á meðal á fljótandi jarðgas (LNG), kol og landbúnaðartæki, auk þess sem þau hafa hafið samkeppnisrannsókn á Google.
Frá Íslandi voru fluttar út iðnaðarvörur til ESB og Bandaríkjanna fyrir um 422 milljarða króna árið 2023 samkvæmt upplýsingum frá Íslandsstofu og Hagstofu Íslands.
Þar af nam vöruútflutningur til ESB 382 milljörðum króna eða rétt um 91%. Helstu vörur sem fluttar eru út til ESB eru ál og álvörur ásamt öðrum vörum orkusækins iðnaðar.
Einnig eru fluttar þangað lækningavörur og -tæki, jarðefni og vörur til endurvinnslu. Verðmæti iðnaðarvara sem fluttar voru til Bandaríkjanna nam 40 milljörðum króna árið 2023.
Um er að ræða lækningavörur og -tæki, matvæli, drykkjar- og landbúnaðarvörur, kísiljárn og aðrar iðnaðarvörur.
Útflutningstekjur iðnaðar námu 698 milljörðum króna árið 2023, en ál er þar í meirihluta. Árið 2018 setti Trump 10% toll á ál og kísiljárn frá Íslandi, sem hafði neikvæð áhrif á útflutning kísiljárns en lítið sem ekkert ál er flutt beint út til Bandaríkjanna.
„Útflutningur iðnaðar til ESB nam 256 milljörðum króna árið 2023 og lækkaði nokkuð milli ára en hann nam 458 milljörðum króna árið 2022. Lækkunin er vegna þróunar álverðs en langstærsti hluti álframleiðslu Íslands fer til ESB,“ segir í greiningu SI.