Sam­kvæmt greiningu Sam­taka iðnaðarins á yfir­vofandi við­skipta­stríði milli Bandaríkjanna og Evrópu á Ís­land „mikla hags­muni" að gæta á báðum efna­hags­svæðum.

Evrópu­markaður er mikilvægasti markaður Ís­lands en tug­milljarða út­flutningur er einnig til Bandaríkjanna og fer hann vaxandi, samkvæmt SI.

„Það er því mikilvægt að Ís­land gæti hags­muna sinna bæði gagn­vart ESB og Bandaríkjunum, enda miklir hags­munir í húfi fyrir ís­lenskan út­flutning og þar með hag­kerfið og sam­félagið allt,“ segir í greiningu sam­takanna.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur greint frá hófst við­skipta­stríð um helgina er Donald Trump for­seti Bandaríkjanna ákvað að setja 25% tolla á Kanada og Mexíkó.

Þeim hefur þó verið frestað um mánuð er bæði lönd ákváðu að verða við vilja Bandaríkja­for­seta um að auka landa­mæra­eftir­lit.

Trump lagði 10% toll á inn­flutnings­vörur frá Kína og ákváðu kín­versk stjórn­völd í nótt að setja nýja tolla á inn­flutning frá Bandaríkjunum, þar á meðal á fljótandi jarð­gas (LNG), kol og land­búnaðartæki, auk þess sem þau hafa hafið sam­keppnis­rannsókn á Goog­le.

Frá Ís­landi voru fluttar út iðnaðar­vörur til ESB og Bandaríkjanna fyrir um 422 milljarða króna árið 2023 sam­kvæmt upp­lýsingum frá Ís­lands­stofu og Hag­stofu Ís­lands.

Þar af nam vöruút­flutningur til ESB 382 milljörðum króna eða rétt um 91%. Helstu vörur sem fluttar eru út til ESB eru ál og álvörur ásamt öðrum vörum orkusækins iðnaðar.

Einnig eru fluttar þangað lækninga­vörur og -tæki, jarðefni og vörur til endur­vinnslu. Verðmæti iðnaðar­vara sem fluttar voru til Bandaríkjanna nam 40 milljörðum króna árið 2023.

Um er að ræða lækninga­vörur og -tæki, mat­væli, drykkjar- og land­búnaðar­vörur, kísiljárn og aðrar iðnaðar­vörur.

Út­flutnings­tekjur iðnaðar námu 698 milljörðum króna árið 2023, en ál er þar í meiri­hluta. Árið 2018 setti Trump 10% toll á ál og kísiljárn frá Ís­landi, sem hafði neikvæð áhrif á út­flutning kísiljárns en lítið sem ekkert ál er flutt beint út til Bandaríkjanna.

„Út­flutningur iðnaðar til ESB nam 256 milljörðum króna árið 2023 og lækkaði nokkuð milli ára en hann nam 458 milljörðum króna árið 2022. Lækkunin er vegna þróunar ál­verðs en langstærsti hluti ál­fram­leiðslu Ís­lands fer til ESB,“ segir í greiningu SI.