Vegna breytinga á millifærslukerfinu blasir misjöfn þróun við tekjulágum annars vegar og millistéttinni hins vegar.

Eins og prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands komst nýlega að og fjallað var um hér í þessu blaði hefur kaupmáttur launþega með meistaragráðu hér á landi staðið í stað frá aldamótum, á meðan kaupmáttur lægstu launa hefur tæplega tvöfaldast á sama tímabili.

Á hinn bóginn er þó vert að nefna að þónokkuð hefur verið um launaskrið nýverið enda vinnumarkaðurinn enn í fullu fjöri. Jafnvel þótt samið verði við milli- og efri-millistéttirnar um hækkanir samkvæmt sömu formúlu á því eftir að koma í ljós hvort sá hópur raunverulega sættir sig við það hlutskipti, eða hvort við endum á að taka enn einn hringinn í höfrungahlaupinu og endum aftur á byrjunarreit að fjórum árum liðnum, eða jafnvel fyrr.

Þeir launalægri fá í mörgum tilfellum fleiri krónur

Þrátt fyrir að tekið sé tillit til áhrifa af aðkomu hins opinbera horfir hefðbundin fjögurra manna fjölskylda, með tvær fyrirvinnur þar sem hvor um sig þénar að minnsta kosti 750 þúsund krónur á mánuði, fram á kaupmáttarrýrnun eftir fyrsta ár samninganna, þótt lítil sé. Séu launin yfir milljón á mann blasir við 2-3% rýrnun.

Sama fjölskylda – sem hér er gert ráð fyrir að eigi tvö börn, annað undir 7 ára og eitt í grunnskóla, og skuldi helming í 70 milljóna króna íbúð sinni, óverðtryggt – stendur aftur á móti frammi fyrir 4-5% kaupmáttaraukningu séu tekjur hvorrar fyrirvinnu um eða undir hálfri milljón.

Raunar er útlit fyrir að jafnvel án tillits til verðbólgunnar komi ráðstöfunartekjur þeirra síðastnefndu að meðtöldum bótum til með að aukast um fleiri krónur en þeirra sem ofar standa á launastiganum.

Fjölskyldur á tekjubilinu 450-650 þúsund (hvor um sig) munu samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins og miðað við áðurnefndar forsendur, enda hver mánaðarmót með um 80 þúsund krónum meira í vasanum. Engin sambærileg fjölskylda með laun frá 750 þúsundum á mann og upp að einni og hálfri milljón nær 70 þúsund króna búbót, nokkrar ná ekki einu sinni 60 þúsund.

Sé horft til hins einhleypa hluta vinnumarkaðarins, sem þó á börn, er munurinn enn meira sláandi. Einstætt foreldri með tvö börn, annað yfir 7 ára og eitt þeirra í grunnskóla, eigin íbúð og með hálfa milljón á mánuði fyrir skatt má búast við 64 þúsund krónum aukalega á mánuði sem gerir 9,2% kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna. Hefði viðkomandi verið með 800 þúsund á mánuði væri kaupmáttarvöxturinn aðeins þriðjungur þess, og við 1.250 þúsund króna mörk efsta skattþrepsins stendur hann í stað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í held hér.