Fjárfestingarfélagið Snæból tapaði rúmum 1,2 milljörðum króna á síðasta ári. Til samanburðar hagnaðist félagið um 9,3 milljarða króna á árunum 2020 og 2021.
Snæból er næst stærsti hluthafi Sjóvár með 9,96% hlut. Það er meðal stærstu hluthafa í lyfjafyrirtækinu Coripharma og á hlut í framtakssjóðunum Umbreytingu og Umbreytingu II. Snæból á einnig hlut í Eyri Invest, fasteignaþróunarfélaginu Klasa og virkjanafélaginu Arctic Hydro.
Eignir Snæbóls, sem er í eigu hjónanna Finns R. Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, námu 20,7 milljörðum króna og eigið fé var 19,5 milljarðar í árslok 2022, en félagið er nær skuldlaust.
Þá kemur fram að félagið varði um 144 milljónum króna í styrki og framlög til góðgerðarmála á árunum 2021 og 2022.