Uppgjör á kaupréttum starfsfólks LS Retail er ástæða stórrar sveiflu í afkomu félagsins á síðasta rekstarári. Gróflega leiðrétt fyrir áhrifum uppgjörsins má áætla að síðasta ár hafi verið betra en árið 2019.

Samkvæmt rekstrarreikningi samstæðu LS Retail var afkoma félagsins í fyrra neikvæð um tæplega 8,4 milljónir evra, andvirði um 1.234 milljóna króna á gengi dagsins, samanborið við hagnað upp á tæplega 8,9 milljónir evra árið á undan. EBITDA félagsins var neikvæð í fyrra sem nemur 6,3 milljónum evra en jákvæð um 14,5 milljónir evra ári fyrr.

Á síðasta ári drógust tekjur félagsins saman um þrjár milljónir evra, námu rúmum 56 milljónum evra, en margir viðskiptavinir þess héldu að sér höndum sökum faraldursins. Í mars dró félagið á fjögurra milljóna evra lánalínu, til öryggis vegna faraldursins, en lánið var endurgreitt í júní. Flestar stærðir rekstrarreikningsins eru að stærstu sambærilegar milli ára en þar skera laun og launatengd gjöld sig hins vegar úr. Þau námu 16,4 milljónum evra árið 2019 en höfðu ríflega tvöfaldast í fyrra og námu 36,1 milljón evra.

Skýringar við ársreikninginn, sem sendur var ársreikningaskrá, veittu ekki svör við ráðgátunni, en þar kom fram að stöðugildum að meðaltali hefði fjölgað úr 212 í 244. Sú fjölgun dugði tæplega til að útskýra risastökkið í launakostnaðinum.

Á síðasta ári var LS Retail í eigu Hoxton (Lux) S.á.r.l. og Hoxton Pooling LLC en undir lok árs barst tilboð í félagið frá Aspen Iceland Buyer ehf., sem er í eigu Aptos, en það er að endingu í eigu Goldman Sachs. Tilkynnt var um viðskiptin um miðjan janúar og gengu þau endanlega í gegn um miðjan febrúar.

„Félagið var selt til nýrra eigenda í lok árs 2020 og við það skapaðist skuldbinding til að gera upp kaupréttina við starfsfólk. Sökum þess þurfti að færa alla kauprétti starfsmanna til launa á árinu sem leið,“ segir Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail, við Viðskiptablaðið og vísar í að þetta komi allt fram í ársreikningi félagsins.

Sá var upprunalega á ensku en þýdd var útgáfa hans send ársreikningaskrá. Í þýðingu féllu nokkrar setningar úr ársreikningnum og er sökum þess skiljanlegt að menn hafi velt fyrir sér stökkinu í launakostnaði. Í upprunalegri útgáfu er að finna skýringar á breytingunni bæði í skýrslu stjórnar og skýringum við ársreikninginn sjálfan. Þar kemur fram að rúmlega 22 milljóna evra kaupréttir, rúmlega 3,2 milljarðar króna á gengi dagsins í dag, hafi verið taldir til launa á árinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .