Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir veikindaréttinn vera dæmi um mismunun milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.
„Það eru engin rök fyrir því að opinberir starfsmenn búi við meiri veikindarétt en almenni markaðurinn,“ segir Ásdís. „Við sjáum það að veikindaprósentan á opinberum markaði er allt að þrisvar sinnum hærri en á almennum markaði og árlegur kostnaður hleypur á milljörðum króna og fer hækkandi. Ég sé að þetta stefnir í óefni og einskorðast ekki við Kópavogsbæ heldur sýna opinberar tölur fram á þetta."
„Á sama tíma og sveitarfélög eru að sinna mikilvægri þjónustu, en um leið standa vörð um sjálfbæran rekstur, er breyta sem heitir „veikindakostnaður“ sem ríkur upp nær stjórnlaust ár frá ári. Ég hef lagt sérstaka áherslu á að spyrna gegn þessari þróun hjá Kópavogsbæ en verkfærin eru því miður af skornum skammti. Eina leiðin út úr þessum vítahring er að jafna réttindin við almenna markaðinn."
„Það má því segja að sá vandi sem sveitarfélögin standa frammi fyrir í rekstri sínum sé að miklu leyti heimatilbúinn, en með sameiginlegu átaki stjórnmálamanna á að vera hægt að ryðja þessum hindrunum úr vegi.“
Hægt að breyta stöðunni
Spurð hvort opinberi geirinn geta lært eitthvað af einkageiranum svarar Ásdís: „Til að skapa forskot þarf hið opinbera að hafa tækifæri til að vera rekið með skynsömum og hagkvæmum hætti. Það eru sem fyrr segir heimatilbúnar hindranir í veginum sem koma í veg fyrir slíkt."
„Við getum breytt stöðunni, dregið úr sóun og sparað fjármagn skattgreiðenda," segir Ásdís. „Enginn munur á að vera að mínu mati á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Byrjum þar og jöfnun réttindin. Sköpum hvata til frumkvæði og framþróunar í starfi. Leyfið okkur sem stýrum sveitarfélögum að umbuna þeim sem þykja skara fram úr í starfi. Styttum kæruferla, drögum úr regluverkafargi sem hefur verið innleitt, hættum að innleiða lög sem skila engu öðru en kostnaði.
Þetta eru allt þættir sem eru á valdi þingsins og ég skora á þingmenn að breyta þessu.“
Fjallað er um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing 2025. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.