Alcoa Fjarðaál hefur ákveðið að falla frá skaðabótamáli gegn Eimskipafélagi Íslands og Samskipum, sem átti að vera tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í mánuðinum.
Alcoa krafðist rúmlega þriggja milljarða króna í skaðabætur, ásamt dráttarvöxtum, vegna meintrar skaðabótaskyldu sem rekja átti til ætlaðs samráðs Eimskips og Samskipa á árunum 2008 til 2013.
Upphaf málsins má rekja til tjónamats sem unnið var að beiðni og í umboði VR, Neytendasamtakanna og Félags atvinnurekenda.
Tjónamatið var kynnt af Breka Karlssyni hjá Neytendasamtökunum og Ragnari Þór Ingólfssyni, þáverandi framkvæmdastjóra VR, sem hvatningu til fjölda fyrirtækja til að höfða mál gegn skipafélögunum.
Minnisblaðið og ummæli þeirra fengu mikla fjölmiðlaumfjöllun, en líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um, voru fjölmargir gallar í því, ekki síst vegna skilyrða sem Ragnar og Breki kröfðust að Analytica myndi vinna eftir við útreikninga sína.
Minnisblað Analytica um meintan skaða íslenskra neytenda og fyrirtækja vegna ætlaðs samráðs skipafélaganna var grundvöllur kröfu Alcoa, þrátt fyrir að ráðgjafarfyrirtækið sjálft setti þónokkra varnagla í álitið.
Analytica tók skýrt fram í vinnu sinni að einungis væri um frummat að ræða.
Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri og stofnandi Analytica, að fyrirtækið hafi þurft að vinna frummatið eftir ákveðnum forsendum.
„Við vorum bara beðin um að miða við gögn sem mætti finna í þessari skýrslu [ákvörðun SKE] og það er náttúrulega bara forsenda okkar greiningar að þau gögn séu rétt,“ segir Yngvi.
Ein þeirra forsendna sem greinendur Analytica þurftu að gefa sér sökum gagnaskorts var sú að verðlagning Eimskips hefði þróast eins og hjá Samskipum, þar sem Analytica hafði ekki upplýsingar um verðlagningu Eimskips við gerð frummatsins.
Minnisblaðið var engu að síður meginstoð í almennri umræðu um meint tugmilljarða tjón þjóðarbúsins og var sérstaklega nýtt af VR, Neytendasamtökunum og Félagi atvinnurekenda til að hvetja fyrirtæki og einstaklinga til málshöfðunar gegn Eimskip og Samskipum.
Í greiningunni komst Analytica að þeirri niðurstöðu að samfélagslegt tjón af völdum meints samráðs næmi allt að 62 milljörðum króna.
Þessi niðurstaða vakti strax mikla athygli, enda var um að ræða gríðarlega háa fjárhæð miðað við forsendurnar sem lágu að baki.
Eimskip óskaði eftir því að sjálfstæðir hagfræðingar færu yfir minnisblað Analytica og matið sem það innihélt.
Þeirra á meðal voru dr. Birgir Þór Runólfsson, dósent og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands, og dr. Ragnar Árnason, prófessor emeritus.
Þeir komust að afgerandi niðurstöðu um að minnisblaðið væri í heild ónothæft sem grundvöllur skaðabótamats.
Það væri byggt á verulegum tölfræðilegum og efnahagslegum ágöllum, sem gerðu alla niðurstöðu þess óáreiðanlega.
Ein af grundvallarathugasemdum fræðimannanna laut að þeirri staðreynd að Analytica hafði engin gögn um verðlagningu Eimskips yfir það sex ára tímabil sem samráðið átti að hafa átt sér stað.
Þess í stað var verðþróun Eimskips einfaldlega jafnað við þá þróun sem Samkeppniseftirlitið hafði skráð hjá Samskipum.
Þessi aðferð var sögð gagnrýnisverð í sjálfu sér, en í þessu tilviki þó sérstaklega alvarleg, þar sem ljóst væri að verðmyndun í gámaflutningum væri að verulegu leyti háð tilboðum, samningum og öðrum sértækum skilmálum sem birtar gjaldskrár endurspegla illa.
Jafnframt bentu fræðimennirnir á að verðskrá Samkeppniseftirlitsins fyrir Samskip hefði verið borin saman við vísitölu neysluverðs, sem þótt ófullkomið viðmið í sjálfu sér, var notað til að afmarka „raunverð“ í greiningu Analytica.
Því var slegið föstu að gjaldskrár Samskipa hefðu hækkað talsvert umfram almenna verðbólgu og þar með yrði að meta samfélagslegt tjón.
Þegar til kom reyndist stærstur hluti þeirrar hækkunar hafa átt sér stað síðla árs 2008, á mánuðum sem einkenndust af einni mestu gjaldeyriskreppu í sögu landsins.
Sérstaklega var gagnrýnt að Analytica, að ósk umbjóðenda sinna, hefði ekki tekið tillit til gengisbreytinga á tímabilinu, sem þó höfðu afgerandi áhrif á verð í krónum talið.
Slíkt var í samræmi við úrskurð Samkeppniseftirlitsins í málinu sem Analytica þurfti að vinna eftir.
Á árinu 2008 féll íslenska krónan um 86% gagnvart evru, og þar sem nær allir flutningssamningar Eimskips og Samskipa voru í erlendri mynt, nam raunveruleg hækkun í krónum talið miklu meira en evruverðið hefði gefið til kynna.
Þrátt fyrir þetta féllu gengisáhrifin utan við útreikninga Analytica, þar sem frumatið var einungis byggt á evrugjaldskrám og íslenskri verðvísitölu.
Baltic Dry Index
Einnig vakti furðu að Analytica skyldi bera saman flutningsverð í gámaflutningum við Baltic Dry Index, sem er vísitala sem mælir flutningskostnað á hrávöru í lausu formi, s.s. kolum, járn- og kornvörum.
Slíkir „bulk“-flutningar eiga lítið skylt við gámaflutninga þar sem verðmyndun er allt annars eðlis.
Notkun vísitölunnar var sérstaklega gagnrýnd í skýrslu Eimskips og benti félagið á að toppur Baltic Dry Index í júlí 2008, sem notaður var sem grunnviðmið í mati Samkeppniseftirlitsins, hefði verið óvenjulegur og ekki eðlilegt viðmið fyrir margra ára mat.

Tölfræðileg reiknivilla í kjarnahugmynd
Dr. Ragnar Árnason benti einnig á aðra villu í útreikningum á svokölluðu „allratapi“ (e. deadweight loss), eða því tjóni sem samfélagið þyrfti að bera vegna skekktra verðmerkja í samkeppnisbæltu umhverfi.
Þar sem Analytica mat allratapið á 3,7 milljarða króna, sýndi úttekt Ragnars að samkvæmt forsendum Samkeppniseftirlitsins sjálfs væri rétt niðurstaða aðeins 122 milljónir króna.
Þessi munur, rúmir 3,5 milljarðar, var ekki talinn tilkominn vegna matságreinings heldur reiknivillu í sjálfu líkaninu.
Fyrir liggur að sú meinta fjárkrafa sem lögð var fram af Alcoa á hendur Eimskip byggði á útreikningum sem nú hafa verið hraktir með afgerandi hætti.
Fráfall málsóknarinnar undirstrikar að meginforsendur hennar voru illa ígrundaðar og í sumum tilvikum beinlínis rangar.
Með því að reiða sig alfarið á minnisblað sem höfundar settu varnagla við sem og sjálfstæðir sérfræðingar liggur fyrir að tilefni málshöfðunar var í reynd ekki fyrir hendi, að mati Eimskips.
Eftir stendur að fullyrðingar um tugmilljarða samfélagslegt tjón voru reistar á veikum grunni og í ljósi þeirra staðreynda er erfitt að sjá hvernig þær gátu hlotið þá miklu dreifingu og trúverðugleika í opinberri umræðu sem raun bar vitni um.