Alcoa Fjarðaál hefur ákveðið að falla frá skaða­bóta­máli gegn Eim­skipafélagi Ís­lands og Samskipum, sem átti að vera tekið fyrir í Héraðs­dómi Reykja­víkur síðar í mánuðinum.

Alcoa krafðist rúm­lega þriggja milljarða króna í skaða­bætur, ásamt dráttar­vöxtum, vegna meintrar skaða­bóta­skyldu sem rekja átti til ætlaðs samráðs Eim­skips og Sam­skipa á árunum 2008 til 2013.

Upp­haf málsins má rekja til tjóna­mats sem unnið var að beiðni og í um­boði VR, Neyt­enda­sam­takanna og Félags at­vinnu­rek­enda.

Tjóna­matið var kynnt af Breka Karls­syni hjá Neyt­enda­samtökunum og Ragnari Þór Ingólfs­syni, þáverandi fram­kvæmda­stjóra VR, sem hvatningu til fjölda fyrir­tækja til að höfða mál gegn skipafélögunum.

Minnis­blaðið og um­mæli þeirra fengu mikla fjölmiðlaum­fjöllun, en líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað ítar­lega um, voru fjölmargir gallar í því, ekki síst vegna skil­yrða sem Ragnar og Breki kröfðust að Analyti­ca myndi vinna eftir við út­reikninga sína.

Minnis­blað Analyti­ca um meintan skaða ís­lenskra neyt­enda og fyrir­tækja vegna ætlaðs samráðs skipafélaganna var grund­völlur kröfu Alcoa, þrátt fyrir að ráðgjafar­fyrir­tækið sjálft setti þónokkra var­nagla í álitið.

Analyti­ca tók skýrt fram í vinnu sinni að einungis væri um frum­mat að ræða.

Í sam­tali við Við­skipta­blaðið sagði Yngvi Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri og stofnandi Analyti­ca, að fyrir­tækið hafi þurft að vinna frum­matið eftir ákveðnum for­sendum.

„Við vorum bara beðin um að miða við gögn sem mætti finna í þessari skýrslu [ákvörðun SKE] og það er náttúru­lega bara for­senda okkar greiningar að þau gögn séu rétt,“ segir Yngvi.

Ein þeirra for­sendna sem grein­endur Analyti­ca þurftu að gefa sér sökum gagna­skorts var sú að verðlagning Eim­skips hefði þróast eins og hjá Sam­skipum, þar sem Analyti­ca hafði ekki upp­lýsingar um verðlagningu Eim­skips við gerð frum­matsins.

Minnis­blaðið var engu að síður megin­stoð í al­mennri um­ræðu um meint tug­milljarða tjón þjóðar­búsins og var sér­stak­lega nýtt af VR, Neyt­enda­samtökunum og Félagi at­vinnu­rek­enda til að hvetja fyrir­tæki og ein­stak­linga til máls­höfðunar gegn Eim­skip og Sam­skipum.

Í greiningunni komst Analyti­ca að þeirri niður­stöðu að sam­félags­legt tjón af völdum meints samráðs næmi allt að 62 milljörðum króna.

Þessi niður­staða vakti strax mikla at­hygli, enda var um að ræða gríðar­lega háa fjár­hæð miðað við for­sendurnar sem lágu að baki.

Eim­skip óskaði eftir því að sjálf­stæðir hag­fræðingar færu yfir minnis­blað Analyti­ca og matið sem það inni­hélt.

Þeirra á meðal voru dr. Birgir Þór Runólfs­son, dó­sent og deildar­for­seti Hag­fræði­deildar Háskóla Ís­lands, og dr. Ragnar Árna­son, pró­fessor emeritus.

Þeir komust að af­gerandi niður­stöðu um að minnis­blaðið væri í heild ónot­hæft sem grund­völlur skaða­bóta­mats.

Það væri byggt á veru­legum töl­fræði­legum og efna­hags­legum ágöllum, sem gerðu alla niður­stöðu þess óáreiðan­lega.

Ein af grund­vallar­at­huga­semdum fræðimannanna laut að þeirri stað­reynd að Analyti­ca hafði engin gögn um verðlagningu Eim­skips yfir það sex ára tíma­bil sem samráðið átti að hafa átt sér stað.

Þess í stað var verðþróun Eim­skips ein­fald­lega jafnað við þá þróun sem Sam­keppnis­eftir­litið hafði skráð hjá Sam­skipum.

Þessi að­ferð var sögð gagn­rýnis­verð í sjálfu sér, en í þessu til­viki þó sér­stak­lega al­var­leg, þar sem ljóst væri að verð­myndun í gáma­flutningum væri að veru­legu leyti háð til­boðum, samningum og öðrum sértækum skilmálum sem birtar gjald­skrár endur­spegla illa.

Jafn­framt bentu fræði­mennirnir á að verðskrá Sam­keppnis­eftir­litsins fyrir Sam­skip hefði verið borin saman við vísitölu neyslu­verðs, sem þótt ófull­komið viðmið í sjálfu sér, var notað til að af­marka „raun­verð“ í greiningu Analyti­ca.

Því var slegið föstu að gjald­skrár Sam­skipa hefðu hækkað tals­vert um­fram al­menna verðbólgu og þar með yrði að meta sam­félags­legt tjón.

Þegar til kom reyndist stærstur hluti þeirrar hækkunar hafa átt sér stað síðla árs 2008, á mánuðum sem ein­kenndust af einni mestu gjald­eyris­kreppu í sögu landsins.

Sér­stak­lega var gagn­rýnt að Analyti­ca, að ósk um­bjóðenda sinna, hefði ekki tekið til­lit til gengis­breytinga á tíma­bilinu, sem þó höfðu af­gerandi áhrif á verð í krónum talið.

Slíkt var í samræmi við úr­skurð Sam­keppnis­eftir­litsins í málinu sem Analyti­ca þurfti að vinna eftir.

Á árinu 2008 féll ís­lenska krónan um 86% gagn­vart evru, og þar sem nær allir flutnings­samningar Eim­skips og Sam­skipa voru í er­lendri mynt, nam raun­veru­leg hækkun í krónum talið miklu meira en evru­verðið hefði gefið til kynna.

Þrátt fyrir þetta féllu gengisáhrifin utan við út­reikninga Analyti­ca, þar sem frumatið var einungis byggt á evru­gjald­skrám og ís­lenskri verðvísitölu.

Baltic Dry Index

Einnig vakti furðu að Analyti­ca skyldi bera saman flutnings­verð í gáma­flutningum við Baltic Dry Index, sem er vísi­tala sem mælir flutnings­kostnað á hrávöru í lausu formi, s.s. kolum, járn- og korn­vörum.

Slíkir „bulk“-flutningar eiga lítið skylt við gáma­flutninga þar sem verð­myndun er allt annars eðlis.

Notkun vísitölunnar var sér­stak­lega gagn­rýnd í skýrslu Eim­skips og benti félagið á að toppur Baltic Dry Index í júlí 2008, sem notaður var sem grunn­viðmið í mati Sam­keppnis­eftir­litsins, hefði verið óvenju­legur og ekki eðli­legt viðmið fyrir margra ára mat.

Punktalínan sýnir viðmiðunartímabilið sem unnið var eftir.

Töl­fræði­leg reikni­villa í kjarna­hug­mynd

Dr. Ragnar Árna­son benti einnig á aðra villu í út­reikningum á svo­kölluðu „allra­tapi“ (e. dea­dweig­ht loss), eða því tjóni sem sam­félagið þyrfti að bera vegna skekktra verð­merkja í sam­keppnis­bæltu um­hverfi.

Þar sem Analyti­ca mat allra­tapið á 3,7 milljarða króna, sýndi út­tekt Ragnars að sam­kvæmt for­sendum Sam­keppnis­eftir­litsins sjálfs væri rétt niður­staða aðeins 122 milljónir króna.

Þessi munur, rúmir 3,5 milljarðar, var ekki talinn til­kominn vegna matsá­greinings heldur reikni­villu í sjálfu líkaninu.

Fyrir liggur að sú meinta fjárkrafa sem lögð var fram af Alcoa á hendur Eim­skip byggði á út­reikningum sem nú hafa verið hraktir með af­gerandi hætti.

Frá­fall málsóknarinnar undir­strikar að megin­for­sendur hennar voru illa ígrundaðar og í sumum til­vikum bein­línis rangar.

Með því að reiða sig al­farið á minnis­blað sem höfundar settu var­nagla við sem og sjálf­stæðir sér­fræðingar liggur fyrir að til­efni máls­höfðunar var í reynd ekki fyrir hendi, að mati Eimskips.

Eftir stendur að full­yrðingar um tug­milljarða sam­félags­legt tjón voru reistar á veikum grunni og í ljósi þeirra stað­reynda er erfitt að sjá hvernig þær gátu hlotið þá miklu dreifingu og trúverðug­leika í opin­berri um­ræðu sem raun bar vitni um.