Rúmlega 2,2 milljarða króna utanþingsviðskipti með bréf Amaroq voru tilkynnt rétt fyrir níu í morgun er 17,5 milljón hlutir í málmleitarfélaginu skiptust um hendur á genginu 124 krónur.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var um að ræða breytanlegt skuldabréf á gjalddaga og ákvað handhafi skuldabréfsins að selja hlutabréfin.
Dagslokagengi Amaroq var 126,5 krónur í gær en hlutabréfaverð málmleitarfélagsins hefur hækkað um 24% síðastliðinn mánuð.
Gengið hefur hækkað um rúm 3% í viðskiptum dagsins og stendur í 131 krónu þegar þetta er skrifað.
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, sagði í árshlutauppgjöri í ágústmánuði að félagið muni að öllu óbreyttu byrja að framleiða gull fyrir árslok.
Gullverð á heimsvísu hefur verið í sögulegum hæðum í ár og stóð únsan í 2658,99 dölum í gær eftir um 28,7% hækkun á árinu.