Rúm­lega 2,2 milljarða króna utan­þings­við­skipti með bréf Amaroq voru til­kynnt rétt fyrir níu í morgun er 17,5 milljón hlutir í málm­leitar­fé­laginu skiptust um hendur á genginu 124 krónur.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins var um að ræða breytan­legt skulda­bréf á gjald­daga og á­kvað hand­hafi skulda­bréfsins að selja hlutabréfin.

Dagsloka­gengi Amaroq var 126,5 krónur í gær en hluta­bréfa­verð málm­leitar­fé­lagsins hefur hækkað um 24% síðast­liðinn mánuð.

Gengið hefur hækkað um rúm 3% í viðskiptum dagsins og stendur í 131 krónu þegar þetta er skrifað.

Eldur Ólafs­son, for­stjóri Amaroq Minerals, sagði í árs­hluta­upp­gjöri í ágúst­mánuði að fé­lagið muni að öllu ó­breyttu byrja að fram­leiða gull fyrir árs­lok.

Gull­verð á heims­vísu hefur verið í sögu­legum hæðum í ár og stóð únsan í 2658,99 dölum í gær eftir um 28,7% hækkun á árinu.