Gagnaversfyrirtækið atNorth, sem áður tilheyrði Advania samstæðunni og hét þá Advania Data Centers, hefur hafið framkvæmdir á umhverfisvænu gagnaveri í Stokkhólmi í Svíþjóð.
- Sjá einnig: Advania Data Centers breytir um nafn
Framkvæmdin er metin á 72 milljónir dollara, eða um 9 milljarða íslenskra króna. atNorth mun reisa gagnaverið, sem er um 6400 fermetrar að stærð, í sjö fösum og er áætlað að fyrsti hluti versins verði tilbúinn til notkunar í desember á næsta ári.
atNorth leggur áherslu á að lágmarka umhverfisfótspor félagsins og eru umhverfisvænar lausnir í forgrunni verkefnisins. Þannig mun heita loftið frá gagnaverinu ekki fara til spillis heldur verður það nýtt til húshitunar í Stokkhólmi, í samstarfi við Stockholm Exergi.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, segir í tilkynningu að gagnaverið sé tímamótaverkefni í útrás fyrirtækisins, en nýja gagnaverið verður fyrsta gagnaver atNorth utan Íslands.
Með nýja verinu hyggst félagið bjóða upp á aukið rekstraröryggi fyrir viðskiptavini sína með því að geta hýst þjónustuna í tveimur hátæknigagnaverum í aðskildum löndum. Viðskiptavinir félagsins eru ýmis alþjóðleg stórfyrirtæki og stofnanir sem starfa meðal annars við rannsóknir, þá til að mynda í heilbrigðisgeiranum, gagnagreiningum, gervigreind, framleiðsluiðnaði og veðurfræði, sem kallar á sífellt aukna reiknigetu.
- Sjá einnig: Fjárfesta fyrir 9 milljarða
Með fjárfestingu í Svíþjóð kemst atNorth inn á nýja markaði, ekki aðeins í landfræðilegu tilliti heldur einnig hvað aðgengi að raforku varðar, en Eyjólfur Magnús hefur sagt fyrirtækið fá raforku á 20% lægra verði í Svíþjóð en á Íslandi. Að teknu tilliti til sölu fyrirtækisins á hitanum úr gagnaverinu sé kostnaður vegna raforku um 40% lægri en hér.