Brian Niccol, sem tekur við forstjórastarfinu hjá Starbucks í næsta mánuði, verður einn launahæsti forstjóri Bandaríkjanna samkvæmt Financial Times.
Þegar laun, bónusgreiðslur og önnur hlunnindi Niccol eru talin saman er samningurinn metinn á 113 milljónir Bandaríkjadala sem samsvarar um 15,6 milljörðum íslenskra króna. Mun það vera fjórfalt stærri launapakki en forveri hans fékk.
Niccol er fjórði forstjóri Starbucks á þremur árum en hann hefur verið forstjóri Chipotle Mexican Grill frá árinu 2018. Þegar Niccol tók við var orðspor Chipotle vægast sagt á slæmum stað eftir meðal annars nóróveirufaraldur á veitingastöðum keðjunnar sem sýkti fjölmarga viðskiptavini.
Hlutabréfaverð Chipotle hækkaði um 800% í stjórnartíð Niccol.
Í launapakka Niccol er að finna 10 milljóna dala greiðslu sem hann fær greitt við undirritun. Árslaun hans eru 1,6 milljónir Bandaríkjadala eða um 221 milljón íslenskra króna. Launin geta hækkað í 3,6 milljónir dala miðað við gengi Starbucks í Kauphöllinni.
Hann mun síðan fá hlutabréf í Starbucks að andvirði 75 milljónir Bandaríkjadala til að vega á móti ónýttum kaupréttum sem hann átti í Chipotle.
„Lítil skrifstofa við ströndina“
Heildarlaun Niccol í fyrra voru 22,5 milljónir dala en hann er sagður hafa átt kauprétti að andvirði 82 milljóna dala.
Samkvæmt Financial Times fylgdu samningnum þó heldur óvenjuleg hlunnindi en Niccol mun ekki setjast að í Seattle þar sem höfuðstöðvar Starbucks eru heldur verður honum útvegað „lítilli skrifstofu“ við Newport Beach í Kaliforníu.
Niccol fær einnig að ráða sína eigin aðstoðarmenn og ákvarða laun þeirra.