Það er ekki einungis Landsvirkjun sem þarf að sætta sig við að fara á mis spennandi tækifæri og verkefni sökum þess að raforkukerfið er komið að þanmörkum. Svipuð staða er uppi í flutningskerfi raforku. Á síðasta ári gaf Landsnet, sem annast flutning raforku hér á landi, út skýrslu sem unnin var af alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Frontier Economics. Í henni kemur fram að fyrirtæki og samfélagið allt verði fyrir efnahagslegu tapi þegar flutningskerfi raforku standi í vegi fyrir eða tefji framgang hagkvæmra verkefna. Þegar allar krónurnar séu taldar sé nokkuð ljóst að takmarkanir í flutningskerfinu hafi mikil neikvæð áhrif á velferð samfélagsins sem og getu Íslands til að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Ef ekki verði ráðist í stórar framkvæmdir í flutningskerfinu tefjist fleiri verkefni með tilheyrandi kostnaði sem hlaupi á milljörðum — ef ekki tugum milljarða — króna ár hvert.

„Í skýrslunni eru tekin dæmi. Annars vegar er nefnt dæmi um raforkufyrirtæki sem hvorki getur nýtt virkjanir sínar á fullnægjandi hátt né virkjað kosti úr virkjanaflokki rammaáætlunar því flutningskerfið getur ekki tekið við orkunni. Samfélagslegt tap vegna þess hleypur á milljörðum króna árlega af orkusölunni einni saman. Hins vegar er tekið dæmi af nýsköpunarfyrirtæki í arðsömum rekstri sem borgar að jafnaði nálægt tvöföldum meðallaunum og vilja auka starfsemi sína. Stækkunaráform fyrirtækisins gætu hins vegar tafist ef ekki tekst að styrkja flutningskerfið á Reykjanesi í tæka tíð,“ segir Jón Skafti Gestsson, sérfræðingur í hagrænum greiningum hjá Landsneti.

Niðurstöður skýrslunnar gefi til kynna að samfélagslegt tap hlaupi á milljörðum króna ár hvert og jafnvel tugum milljarða þegar horft sé lengra fram í tímann. Samfélagslegt tap í launamuninum einum saman geti til að mynda hlaupið á hundruðum milljóna ár hvert. „Í skýrslunni er einnig fjallað um hugmyndir um rafeldsneytisframleiðslu. Til lengri tíma er mögulegt að Íslandi gæti framleitt eldsneyti og orðið óháð innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Íslendingar hafa undanfarinn áratug flutt inn eldsneyti fyrir um 82 milljarða króna ár hvert eða sem nemur 220 þúsund krónum á hvern íbúa,“ segir hann.

Jón Skafti Gestsson, sérfræðingur í hagrænum greiningum hjá Landsneti.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Viðskiptaþing - Er framtíðin orkulaus eða orkulausnir. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.