Skandinavíska flug­félagið SAS skilaði 2,1 milljarðs sænskra króna rekstrar­tapi í fyrsta árs­hluta­upp­gjöri sínu eftir af­skráningu af markaði. Þrátt fyrir tap eru fram­fara­merki sjáan­leg samkvæmt for­stjóra félagsins.

Árs­upp­gjörið, sem Børsen greinir frá, nær til óreglu­legs rekstrarárs sem hófst í nóvember 2023 og lauk í lok október 2024 en í því kemur fram að tekjur félagsins námu 45,9 milljörðum sænskra króna eða 599 milljörðum ís­lenskra króna.

Rekstrarniður­staðan batnaði frá fyrra ári þegar tap nam 2,7 milljörðum sænskra króna.

SAS flutti alls 25,3 milljónir farþega á tíma­bilinu, sem er 6,4% aukning frá fyrra ári.

Félagið hefur jafn­framt dregið verulega úr skuldum sínum en þær hafa farið úr 32,6 milljörðum sænskra króna í 21,6 milljarða, sem flug­greinandinn Hans Jørgen Elnæs telur jákvætt skref.

Hann bendir á að þrátt fyrir vænt tap hafi SAS sýnt jákvæða þróun með farþega­fjölgun og 5,2% lækkun eininga­kostnaðar.

SAS lauk nauða­samnings­ferli sínu síðasta sumar og hefur síðan þá kynnt fjölmargar nýjar flug­leiðir í sam­starfi við nýja hlut­hafa sína, sem eru fjár­festingar­sjóðurinn Cast­lela­ke, Air France-KLM, Lind Invest og danska ríkið.

Í sumaráætlun 2025 hefur SAS kynnt 15 nýjar flug­leiðir frá Kaup­manna­höfn, sem stefnt er að því að gera að stórri alþjóð­legri flug­höfn.

Í septem­ber gekk SAS í nýtt banda­lag flug­félaga með Skyt­eam, sem telur 20 félög, og kvaddi þar með sam­starfið við Star Alli­ance.

Félagið hefur einnig gert sam­starfs­samning við sænska flug­félagið BRA um innan­lands­flug í Svíþjóð, sem metinn er á 6 milljarða danskra króna.

Eftir miklar fjár­hags­legar þrengingar vegna kórónu­veirufar­aldursins og nauða­samninga í Bandaríkjunum hefur SAS endur­skipu­lagt skuldir fyrir meira en 13 milljarða danskra króna og fengið 8 milljarða danskra króna í nýtt hluta­fé frá nýjum eig­endum sínum, samkvæmt Børsen.

Félagið hyggst auka flug­flota sinn úr 135 flug­vélum í um 160 á næstu fimm árum og ráða nokkur þúsund nýja starfs­menn til að mæta vaxandi eftir­spurn.

Samkvæmt FF7 er SAS eitt um­svifa­mesta er­lenda flug­félagið á Kefla­víkur­flug­velli en þangað fljúga þotur þess dag­lega frá Kaup­manna­höfn og Ósló.

Í sumar ætlar félagið að bjóða upp á nætur­flug frá Ís­landi til Stokk­hólms, tvisvar í viku yfir há­sumar.