Skandinavíska flugfélagið SAS skilaði 2,1 milljarðs sænskra króna rekstrartapi í fyrsta árshlutauppgjöri sínu eftir afskráningu af markaði. Þrátt fyrir tap eru framfaramerki sjáanleg samkvæmt forstjóra félagsins.
Ársuppgjörið, sem Børsen greinir frá, nær til óreglulegs rekstrarárs sem hófst í nóvember 2023 og lauk í lok október 2024 en í því kemur fram að tekjur félagsins námu 45,9 milljörðum sænskra króna eða 599 milljörðum íslenskra króna.
Rekstrarniðurstaðan batnaði frá fyrra ári þegar tap nam 2,7 milljörðum sænskra króna.
SAS flutti alls 25,3 milljónir farþega á tímabilinu, sem er 6,4% aukning frá fyrra ári.
Félagið hefur jafnframt dregið verulega úr skuldum sínum en þær hafa farið úr 32,6 milljörðum sænskra króna í 21,6 milljarða, sem fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs telur jákvætt skref.
Hann bendir á að þrátt fyrir vænt tap hafi SAS sýnt jákvæða þróun með farþegafjölgun og 5,2% lækkun einingakostnaðar.
SAS lauk nauðasamningsferli sínu síðasta sumar og hefur síðan þá kynnt fjölmargar nýjar flugleiðir í samstarfi við nýja hluthafa sína, sem eru fjárfestingarsjóðurinn Castlelake, Air France-KLM, Lind Invest og danska ríkið.
Í sumaráætlun 2025 hefur SAS kynnt 15 nýjar flugleiðir frá Kaupmannahöfn, sem stefnt er að því að gera að stórri alþjóðlegri flughöfn.
Í september gekk SAS í nýtt bandalag flugfélaga með Skyteam, sem telur 20 félög, og kvaddi þar með samstarfið við Star Alliance.
Félagið hefur einnig gert samstarfssamning við sænska flugfélagið BRA um innanlandsflug í Svíþjóð, sem metinn er á 6 milljarða danskra króna.
Eftir miklar fjárhagslegar þrengingar vegna kórónuveirufaraldursins og nauðasamninga í Bandaríkjunum hefur SAS endurskipulagt skuldir fyrir meira en 13 milljarða danskra króna og fengið 8 milljarða danskra króna í nýtt hlutafé frá nýjum eigendum sínum, samkvæmt Børsen.
Félagið hyggst auka flugflota sinn úr 135 flugvélum í um 160 á næstu fimm árum og ráða nokkur þúsund nýja starfsmenn til að mæta vaxandi eftirspurn.
Samkvæmt FF7 er SAS eitt umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli en þangað fljúga þotur þess daglega frá Kaupmannahöfn og Ósló.
Í sumar ætlar félagið að bjóða upp á næturflug frá Íslandi til Stokkhólms, tvisvar í viku yfir hásumar.