Hagnaður General Motors, stærsta bílaframleiðanda Bandaríkjanna, á öðrum ársfjórðungi dróst saman um 32% milli ára og nam 2,9 milljörðum dala.

Í uppgjörstilkynningu bílaframleiðandans segir að rekstrarhagnaður félagsins hafi verið 1,1 milljarði dala lægri en ella vegna nýrra tolla. General Motors segist gera ráð fyrir að neikvæð áhrif af tollum muni aukast á þriðja ársfjórðungi.

Félagið hélt áætlar að breytt rekstrarumhverfi hvað tolla varðar hefði að óbreyttu haft neikvæð áhrif á afkomu félagsins á yfirstandandi ári að fjárhæð 4-5 milljarðar dala. GM segist hafa gripið til aðgerða, þar á meðal að framleiða fleiri bifreiðar í verksmiðjum félagsins í Bandaríkjunum, sem mildi höggið um að minnsta kosti 30%.

Í umfjöllun Reuters segir að GM hafi verið meðal fjölda fyrirtækja sem tók afkomuspá sína úr gildi til að meta áhrif nýrra tolla Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Félagið gaf í kjölfar út nýja afkomuspá þar sem GM gerir ráð fyrir lægri aðlöguðum EBIT-hagnaði, eða á bilinu 10-12,5 milljarða dala. Félagið hélt þeirri afkomuspá óbreyttri í dag.

Undirliggjandi rekstur GM var nokkuð öflugur á fjórðungnum en sala á Bandaríkjamarkaði jókst um 7% milli ára. Rekstrarniðurstaða bílaframleiðandans var yfir spám greinenda á Wall Street, að því er segir í frétt WSJ.