Lýstar kröfur í þrotabú systurfélaganna Arctic Shopping ehf og Geysir Shops ehf, sem ráku verslanir Geysis, námu annars vegar 724 milljónum í Arctic Shopping og 388 milljónum í Geysi Shops.
Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra fengust 87 milljónir upp í veðkröfur í tilfelli Arctic Shopping og 20 milljónir upp í veðkröfur og sértökukröfur hjá Geysi. Ekkert fékkst greitt upp í forgangs-, almennar og eftirstæðar kröfur. Stærstu kröfuhafar búsins voru bankastofnanir.
Sex fataverslanir og lundabúðir
Geysir rak sex fataverslanir víðs vegar um landið sem seldu bæði útivistarföt og hversdagsfatnað, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun mars líkt og Viðskiptablaðið greindi frá .
Geysir rak þrjár verslanir á Skólavörðustíg, eina verslun í verslunarmiðstöðunni Kringlunni og aðra verslun í Hafnarstræti á Akureyri. Einnig rak félagið Fjallraven verslun á Laugavegi. Fyrsta verslun Geysis var síðan opnuð við Geysi í Haukadal árið 2008. Arctic Shopping, systurfélag Geysi, rak einnig ýmsar búðir sem veðjuðu að miklu leyti á ferðaþjónustu og má þar nefna verslanir Lundans, Óðinn, Thor og Jólahúsið við Ingólfstorg.
Hótel Geysir keypti allar vörubirgðir úr þrotabúi Geysis í kjölfar gjaldþrotaskiptanna fyrr á árinu. Verslunin í Haukadal er enn í sama rými, en í versluninni má meðal annars finna vörur sem voru til sölu í verslunum Geysis.